Söngstund í Roðasölum

2. nóv. 2009

Aðra hverja viku heimsækir hópur heimsóknavina Kópavogsdeildar sambýli fyrir fólk með heilabilun í Roðasölum og heldur söngstund fyrir íbúana. Sjálfboðliðarnir mæta með gítarinn og söngblöð og leiða íbúana í söng. Þá er einnig upplestur á ljóðum og í lokin er öllum boðið upp á kaffi og eitthvert góðmeti.

Fyrir utan söngglöðu heimsóknavinina heimsækja aðrir sjálfboðaliðar sambýlið. Heimsóknavinur með hund kemur einu sinni í viku og þá eru heimsóknir til einstaklinga.

Heimsóknavinir Kópavogsdeildar heimsækja stofnanir, sambýli og einkaheimili í Kópavogi og er hlutverk þeirra að veita hlýju og félagsskap. Þeir heimsækja gestgjafa sína reglulega og vara heimsóknirnar venjulega í klukkustund. Heimsóknavinirnir spjalla við gestgjafa sína, fara með þeim út að ganga, á kaffihús og í ökuferðir svo eitthvað sé nefnt. Þeir sem hafa áhuga á því að gerast heimsóknavinur eða fá til sín heimsóknavin geta haft samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected]

Þeir sem vilja gerast félagsmenn í Kópavogsdeild geta haft samband í síma 554 6626 eða skráð sig hér.