Eldhugar kynna sér starfsemi Þjóðleikhússins

9. nóv. 2009

Í síðustu viku fór hópur Eldhuga í heimsókn í Þjóðleikhúsið þar sem hann fékk að kynnast starfsemi hússins. Vel var tekið  á móti krökkunum og fengu þau meðal annars að skoða baksviðs og kynnast vinnuaðstæðum leikara. Krakkarnir voru mjög áhugasamir og komu mikils vísari um leikhússtarfsemi tilbaka úr heimsókninni.

Eldhugar eru ungmenni á aldrinum 13-16 ára af íslenskum og erlendum uppruna sem hittast í Rauða krossinum alla fimmtudaga kl. 17.30-19.00. Ungmennin vinna saman að ýmsum skemmtilegum og skapandi verkefnum með hugtök líkt og vináttu, virðingu og umburðarlyndi að leiðarljósi. Í haust hafa Eldhugar meðal annars fengið að kynnast stuttmyndagerð, ljósmyndun, leiklist og sjálfboðnu starfi en einnig farið í ýmis konar hópefli, spil og leiki. Einu sinni í mánuði fer hópurinn síðan í vettvangsferðir af ýmsu tagi líkt og í Þjóðleikhúsheimsóknina í síðustu viku. Sjálfboðaliðar Rauða krossins taka þátt í og stýra starfinu í samstarfi við fagfólk á ýmsum sviðum.