Vel heppnaður handverksmarkaður

14. nóv. 2009

Fjöldi fólks mætti í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í dag og gerði góð kaup á handverksmarkaði MK-nema. Til sölu voru alls konar prjónavörur, kökur, brjóstsykur, jólakort og handverk frá vinadeild í Mósambík. Alls seldust vörur fyrir 440 þúsund krónur. Ágóðinn rennur til neyðaraðstoðar innanlands.

Handverksmarkaðurinn var lokaverkefni MK-nemanna í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf. Markmið áfangans er að nemendur kynnist sjálfboðnu starfi hjá Rauða krossi Íslands. Nemendur vinna sem sjálfboðaliðar yfir önnina í samráði við kennara í MK og Kópavogsdeildina. Meðal verkefna í boði eru aðstoð við aldraða og einmana, störf í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, og félagsstarf með ungum innflytjendum. Nemendur fá fræðslu um hugsjónir og störf Rauða kross hreyfingarinnar og sækja námskeið fyrir sjálfboðaliða.

Deildin þakkar kærlega öllum þeim sjálfboðaliðum sem útbjuggu handverk á markaðinn, afgreiddu á markaðinum eða komu að honum með öðrum hætti. Framlag ykkar er ómetanlegt. Deildin þakkar einnig þeim sem keyptu vörur á markaðinum og styrktu starf hennar með þessum hætti.

Áfram verður hægt að kaupa prjónavörur og handverk frá Mósambík í sjálfboðamiðstöðinni á opnunartíma hennar kl. 10-16 á virkum dögum.