Enter-krakkarnir fengu heimsókn frá Íþróttaálfinum

16. nóv. 2009

Í síðustu viku fengu Enter-krakkarnir skemmtilega heimsókn en enginn annar en Íþróttaálfurinn kíkti til þeirra í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og vakti það mikla lukku. Hann kenndi þeim ýmsar æfingar og orðaforða tengdum þeim. Þá ræddi hann einnig við þau um mikilvægi holls mataræðis og heilbrigðra lífshátta. Hann sýndi þeim ýmsar listir sem Íþróttaálfurinn er sérfræðingur í, eins og heljarstökk og handahlaup. Krakkarnir stóðu sig mjög vel og tóku vel á móti álfinum.

Enter er starf með ungum innflytjendum 9-12 ára sem felur í sér málörvun og tómstundastarf fyrir nemendur í móttökudeild fyrir nýbúa í Hjallaskóla. Á miðvikudögum kl. 14.00-15.30 koma nemendurnir í sjálfboðamiðstöð deildarinnar þar sem þeir fá málörvun í gegnum fjölbreytta fræðslu, leiki, kynningar og vettvangsferðir. Markmið verkefnisins er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í starfinu sem sjálfboðaliðar geta haft samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is.

Þeir sem vilja gerast félagsmenn í Kópavogsdeild geta haft samband í síma eða skráð sig hér.