Líf og fjör í sjálfboðamiðstöðinni á prjónakaffi

25. nóv. 2009

Núna stendur yfir prjónakaffi í sjálfboðamiðstöðinni og eru fjöldi prjónakvenna saman komnar til að njóta góðrar stundar yfir prjónum og kaffi. Konurnar hafa skilað inn því sem þær hafa prjónað síðasta mánuðinn og fengið meira garn til að halda áfram handavinnu sinni. Konurnar eru sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag og hittast í prjónakaffi síðasta miðvikudag í hverjum mánuði frá kl. 15-18.

Dýrindis prjónaflíkur hafa safnast á síðustu mánuðum og munu konurnar pakka þeim á morgun í þar til gerða fatapakka. Rauða krossinum barst nýlega neyðarbeiðni frá Hvíta-Rússlandi og verða pakkarnir að þessu sinni sendir til barna í neyð þar í landi. Í pakkana fer prjónuð peysa, húfa, sokkar, teppi og bleyjubuxur ásamt handklæði, treyju, samfellum og buxum.

Þeir sem vilja taka þátt í þessu verkefni geta haft samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected]