Skiptidótamarkaður í Molanum og kakó á Hálsatorgi á morgun, laugardaginn

27. nóv. 2009

Á morgun, laugardaginn 28. nóvember, verður mikið um að vera hjá deildinni. Í Molanum, ungmennahúsi Kópavogs, verður haldinn skiptidótamarkaður frá kl. 12-16. Þar gefst fólki tækifæri til að koma með dót og skipta út fyrir annað. Þá er einnig hægt að kaupa notuð leikföng á vægu verði og styrkja gott málefni en ágóðinn rennur til neyðaraðstoðar innanlands. Sjálfboðaliðar í ungmennastarfi deildarinnar, Plúsnum, sjá um markaðinn.

Frá kl. 16-17 verða svo aðrir sjálfboðaliðar deildarinnar á Hálsatorgi þegar kveikt verður á jólatré Kópavogs. Þeir verða með heitt kakó og piparkökur fyrir gesti og gangandi á meðan á skemmtiatriðum stendur og tendrað verður á ljósunum á trénu.

Báðir viðburðirnir eru hluti af jólaþema verkefnisins Nýttu tímann hjá deildinni. Þemað snýst um gleðileg og hagkvæm jól. Markmiðið með verkefninu í heild sinni er að virkja og hvetja fólk þótt að þrengi vegna erfiðra efnahagsaðstæðna, atvinnuleysis og krappra kjara. Verkefninu er ætlað að skapa jákvæðar aðstæður fyrir fólk og ekki síst rjúfa einsemd og félagslega einangrun.