Sjálfboðaliðar gleðjast í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans

7. des. 2009

Um fjörutíu sjálfboðaliðar mættu í sjálfboðamiðstöðina síðasta föstudagskvöld til að fagna í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans en hann er haldinn 5. desember ár hvert. Sjálfboðaliðar og gestir þeirra áttu notalega stund saman, hlýddu á upplestur, söng og tónlist og nutu góðra veitinga.

Að venju var boðið upp á fjölbreytta og áhugaverða dagskrá. Formaður deildarinnar, Garðar H. Guðjónsson, hóf gleðina á því að minnast á mikilvægi sjálfboðaliða en síðan tók við upplestur tveggja rithöfunda. Þórarinn Eldjárn las upp úr bók sinni Alltaf sama sagan og Jón Kalman Stefánsson las upp úr bókinni Harmur englanna sem er nýkomin út. Þá flutti Eldhuginn Hulda Hvönn frumsamið ljóð og Eldhugarnir Kristína, Ólöf og Rakel sungu. Ungur gítarnemandi úr Tónlistarskóla Kópavogs kom og spilaði nokkur lög og síðan slógu sjálfboðaliðarnir sjálfir botninn úr dagskránni með fjöldasöng.

Hefð hefur skapast fyrir því hjá Kópavogsdeild að sjálfboðaliðar geri sér glaðan dag á alþjóðadegi sjálfboðaliðans, 5. desember, og hefur aðsókn jafnan verið góð.

Kristína, Ólöf og Rakel eru söngglaðir Eldhugar.

Árið 1985 tilnefndu Sameinuðu þjóðirnar 5. desember alþjóðlegan dag sjálfboðaliða. Tilgangurinn var sá að vekja athygli á framlagi sjálfboðaliða til samfélagsins. Rauði krossinn er stærsta sjálfboðahreyfing í heimi.