Nemendur frá Austurbæjarskóla í starfskynningu hjá Kópavogsdeild

10. des. 2009

Í gær tók Kópavogsdeild á móti tveimur 10. bekkingum úr Austurbæjarskóla í starfskynningu. Nemarnir heita Martin og Prezemyslav en þeir koma frá Slóvakíu og Póllandi. Þeir fylgdu verkefnastjóra ungmenna- og alþjóðamála yfir daginn. Þeir fóru í heimsókn í Dvöl, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, og fylgdust með starfi fyrir unga innflytjendur sem hittast í sjálfboðamiðstöðinni á miðvikudögum. Auk þess fengu nemarnir fræðslu um hugsjónir, markmið og störf Rauða krossins og kynningu á helstu verkefnum Kópavogsdeildar.  

Markmið slíkrar starfskynningar er að gefa nemendum innsýn inn í hin ýmsu störf í samfélaginu og undirbúa þá undir val á námi eftir 10. bekk. Þeir Martin og Prezemyslav sóttust sérstaklega eftir því að fá að kynnast starfi Rauða krossins.