Lokasamverur fyrir jól

11. des. 2009

Í þessari viku voru síðustu samverur Enter, Eldhuga og Alþjóðlegra foreldra. Hóparnir hafa hist einu sinni í viku í sjálfboðamiðstöðinni síðan um miðjan september en fara nú í jólafrí fram í miðjan janúar.

Alþjóðlegir foreldarar hittust í gærmorgun og nutu veitinga í anda jólanna og hlustuðu á jólalög. Í boði voru malt og appelsín, smákökur, konfekt og kertaljós. Foreldrarnir hafa verið duglegir að mæta í vetur og auka Íslendinga hafa mæður frá Þýskalandi, Svíþjóð, Bandaríkjunum, Kanada og Suður-Afríku tekið þátt. Hópurinn hefur fengið ýmis konar fræðslu, t.d. varðandi svefn og mat barna, dagvistunarmál og ungbarnanudd.

Eldhugarnir hittust líka í gær í síðasta skipti fyrir jól og fóru í laser-tag. Um tuttugu unglingar mættu og skemmtu sér stórvel í leiknum. Síðustu mánuði hafa þau meðal annars farið í heimsókn í Þjóðleikhúsið, fengið fræðslu um stuttmyndagerð, haldið ljóða- og stuttmyndakeppni og fengið að kynnast sjálfboðnu starfi.

Eldhugarnir máluðu líka á boli.

Enter-hópurinn fjölmennti á síðustu samveruna sína á miðvikudaginn enda var piparkökubakstur í boði. Yfir tuttugu krakkar mættu og skemmtu sér vel við að baka piparkökur og skreyta þær í alls konar litum. Hópurinn hefur í haust meðal annars farið í ratleik, fengið heimsókn frá Íþróttaálfinum, búið til jólakort, farið í bingó og heimsótt Þjóðleikhúsið.