Prjónakonur styrkja Rauða krossinn

2. maí 2012

Konurnar í dagvistinni Ekru á Hornafirði hafa verið dyggir stuðningsaðilar Rauða krossins á liðnum árum. Af því tilefni bauð stjórn Hornafjarðardeildar þeim í heimsókn og kaffi í hús deildarinnar við Víkurbraut þriðjudaginn 24. apríl. Þar voru þeim færðar sérstakar þakkir og viðurkenningarskjal til staðfestingar á því óeigingjarna starfi sem þær hafa lagt á sig með því að prjóna föt sem þær gefa Rauða krossinum.

Fötin koma að góðum notum bæði innanlands og svo erlendis þar sem víða er þörf á hlýjum fatnaði í löndum sem Rauði krossinn sendir hjálpargögn til. Rauði krossinn metur allan stuðning mjög mikils, ekki síst nú á tímum niðurskurðar og aðhalds á öllum sviðum.

Prjónakonurnar gerðu það ekki endasleppt í heimsókn sinni, því þær færðu deildinni þrjá poka af prjónavörum og 24 þúsund krónur í peningum að auki.

Fyrir það og allan stuðning fyrr og síðar færir stjórn Hornafjarðardeildar þeim bestu þakkir fyrir hönd Rauða krossins með sumarkveðjum.