Prjónað til góðs í dagvistinni á Höfn

13. apr. 2010

Sú hefð hefur skapast á dagvist Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands á Höfn að prjónað er til góðs á föstudögum. Prjónavaran sem kemur úr þeirri vinnu er gefin Rauða krossinum.

Ásgerður K. Gylfadóttir formaður Hornafjarðardeildar heimsótti dagvistina á föstudaginn og tók við 82 sokkapörum, 39 vettlingum, 19 húfum, einni peysu, einum trefli og fjórum þvottapokum. Auk þessa var afhentur peningur fyrir það sem dagvistarfólk hafði þegar selt hjá sér.

Hornafjarðardeild Rauða krossins mun bjóða þessar fallegu og vel unnu prjónavörur til sölu á opnu húsi deildarinnar sem auglýst verður síðar í apríl. Ágóðinn fer allur í Hjálparsjóð. Síðan verður það sem af gengur sent til úthlutunar á vegum fatasöfnunar Rauða krossins.

Það má því segja að unnið sé að góðum málefnum í dagvist sem kemur bæði samfélaginu á Höfn og þurfandi fólki um allan heim til góða.

Þeir sem eiga garnafganga eða garn sem þeir vilja gefa til góðs málefnis eru hvattir til að koma með það í dagvist í Ekrunni eða hafa samband við starfsmenn dagvistar í síma 478 2142.