Gjöf frá Norðlenska til Rauða krossins á Höfn

22. des. 2009

Fulltrúar Norðlenska afhentu í gær Rauða krossinum á Höfn í Hornafirði 10 matarpakka að gjöf og verður kræsingunum komið til þeirra sem eru þurfandi. Norðlenska hefur haft þetta fyrir sið undanfarin sex ár, í stað þess að senda jólakort, og hefur það mælst mjög vel fyrir.

„Við ákváðum fyrir sex árum að senda ekki jólakort heldur gefa peninga eða matarpakka til félaga sem koma þeim í hendur þeirra sem eru þurfandi. Við höfum gert þetta á þeim stöðum þar sem við erum með starfsemi,” segir Reynir Eiríksson, framleiðslustjóri Norðlenska.

Að þessu sinni var komið að Höfn og þar voru það forráðamenn Hornafjarðardeildar Rauða kross Íslands sem tóku við gjöfinni fyrir hönd þeirra samtaka á svæðinu sem aðstoða fólk sem á þarf að halda. „Það er mjög ánægjulegt að afhenda þessar gjafir þar sem við vitum að maturinn á eftir að koma sér vel,” segir Reynir.

Á myndinni eru Reynir, Jóna Jónsdóttir, starfsmannastjóri Norðlenska, Magnhildur Gísladóttir formaður Hornafjarðardeildar Rauða krossins og Ásgerður Gylfadóttir gjaldkeri.