Fatasöfnun er eitt stærsta umhverfisverkefni Rauða krossins.

14. des. 2013

Rauði krossinn á Hornafirði hefur tekið í notkun fatasöfnunargám og er hann staðsettur á N1 planinu. Fatasöfnun er stærsta umhverfisverkefni Rauða krossins. Deildir Rauða krossins um allt land safna notuðum fatnaði sem allur nýtist til hjálparstarfs. Um 450 sjálfboðaliðar vinna að fataverkefni Rauða krossins. Það er margþætt, sumir afgreiða í Rauðakrossbúðunum sem er sífellt að fjölga og er að finna víða um landið, aðrir vinna að söfnun og flokkun klæða, og stórir hópar sjálfboðaliða um allt land taka þátt í verkefninu föt sem famlag, þar sem unnir eru staðlaðir ungbarnapakkar sem sendir eru til systrafélaga Rauða krossins í Malaví og Hvíta-Rússlandi.
Fatasöfnun Rauða krossins er ekki einungis frábær endurvinnsla heldur leggur fólk félaginu lið með því að gefa fatnað og styrkir neyðaraðstoð bæði hér á landi og erlendis.

En hvert fer fatnaðurinn?
• hann er seldur beint til útlanda og ágóðinn rennur í Hjálparsjóð Rauða krossins
• hann er flokkaður og gefinn á Íslandi
• hann er flokkaður og gefinn erlendis
• hann er flokkaður og seldur í Rauðakrossbúðunum um land allt

Ónýtur fatnaður er seldur erlendis í endurvinnslu og er því mikilvægt að gefa þann fatnað líka.

Stærstu samstarfsaðilar Rauða krossins eru Sorpa hf. og Eimskip/Flytjandi. Á höfuðborgarsvæðinu er Rauði krossinn í samstarfi við Sorpu um söfnun á fatnaði og eru söfnunargámar á öllum endurvinnslustöðum Sorpu. Eimskip flytur fatagáma félagsins milli landshluta og til útlanda á góðum kjörum. Um er að ræða mikilvægan styrk til fatasöfnunarverkefnis Rauða krossins.

Hornfirðingar hafa verið duglegir að gefa fatnað í Rauða krossinn og undanfarin ár hefur verið tekið á móti fatnaði í porti Áhaldahúss, Rauðakrossbúðinni og nú það nýjasta í fatasöfnunargáminn.

Rauði krossinn á Hornafirði óskar öllum Hornfirðingum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári með þakklæti fyrir árið sem er að líða og sérstakar þakkir til starfsfólks Áhaldahús og Eimskips/ Flytjanda.