Pálína Ásgeirsdóttir hlaut fálkaorðuna fyrir hjálparstörf
Pálína Ásgeirsdóttir hjúkrunarfræðingur og einn allra reyndasti sendifulltrúi Rauða kross Íslands var sæmd fálkaorðunni á þjóðhátíðardaginn 17. júní fyrir alþjóðlegt hjálparstarf. Hartnær 25 ár eru síðan Pálína hóf störf með Rauða krossinum og er hún vel að þessum heiðri komin.
“Ég lít á þennan heiður ekki síður sem viðurkenningu fyrir hjúkrunarstéttina og hjálparstarf almennt,” sagði Pálína Ásgeirsdóttir að þessu tilefni.
Fyrsta starf Pálínu á vettvangi hjálparstarfa var við neyðaraðstoð í Eþíópíu árið 1985, en þangað hélt hún á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar vegna mikillar hungursneyðar sem þar geisaði. Árið 1986 varð hún sendifulltrúi Rauða kross Íslands við skurðspítala Alþjóða Rauða krossins á Tælandi.
Pálína hefur síðan þá starfað fyrir Alþjóða Rauða krossinn og hefur gríðarlega reynslu af störfum á átakasvæðum bæði sem hjúkrunarfræðingur og sem stjórnandi aðgerða. Hún hefur meðal annars unnið í Sómalíu, í Afganistan, Pakistan og Kenýa vegna borgarstríðs í Súdan. Pálína starfaði á vegum utanríkisráðuneytisins við friðargæslustörf á hersjúkrahúsi NATO í Bosníu árið 1999. Þá vann hún sem fulltrúi Alþjóða Rauða krossins að uppbyggingu nýs Rauða kross landsfélags í Austur Tímor.