Rauði kross Íslands styrkir nemendur til framhaldsnáms í Malaví

16. des. 2009

Rauði kross Íslands styður rúmlega 200 grunnskólabörn til mennta í Chiradzulu héraði í suðurhluta Malaví. Félagið styður einnig tvö ungmenni til náms við Náttúru- og auðlindaframhaldsskólann í Lilongve. Þar er boðið upp á nám í landbúnaðarfræðum auk fjölda annarra tengdra greina.  Námið er bæði bóklegt og verklegt og náið samstarf við bændur í grenndinni. Nemendur sem ljúka námi frá auðlindaskólanum eiga þess kost að fara í meistaranám við Háskólann í Malaví.

Læra garðyrkjufræði og áveitufræði
Þeir tveir nemendur sem nú njóta námsstyrkja frá Rauða krossi Íslands heita Benjamin og Sophie og eru bæði frá Chiradzulu. Þau hófu bæði nám við skólann árið 2008. Sophie er að læra garðyrkju en Benjamin stundar nám í áveitufræðum og munu þau útskrifast í byrjun árs 2011.

Rauði krossinn greiðir skólagjöld og uppihald meðan á náminu stendur. Hólmfríður Garðarsdóttir sendifulltrúi Rauða kross Íslands hitti Sophie og Benjamin nýlega í skólanum. Af því tilefni vildu þau koma á framfæri sérstöku þakklæti til Rauða kross Íslands fyrir stuðninginn síðastliðin ár. Þau telja að án þessa stuðnings hefðu þau aldrei haft tækifæri til að ljúka grunnskólanámi eða sækja framhaldsnám. Þau leggja stund á margar hagnýtar námsgreinar sem eru líklegar til skapa þeim góð atvinnutækifæri í framtíðinni.

Benjamin og Sophie voru áður í grunnskólanum í Chiradzulu og fengu þar einnig stuðning frá Rauða krossi Íslands í formi skólagjalda, prófgjalda, ritfanga og skólabúninga.  Auk þess hafa þau notið góðs af þeim hjálpargögnum sem Rauði kross Íslands sendir árlega með gámi frá Íslandi og malavíski Rauði krossinn dreifir til bágstaddra. Foreldrar Benjamins og Sophie létust úr alnæmi og fjölskyldur þeirra, þar á meðal ömmur og yngri systkini eru á meðal þeirra sem njóta stuðnings í alnæmisverkefni Rauða krossins í Chiradzulu.

„Með því að senda stelpur í skóla, byggjum við menntað þjóðfélag”
„Það er ekki algengt að stelpur mennti sig í mínu þorpi,“ segir Sophie.  Stelpur í Chiradzulu og víðar í Malaví ljúka oft ekki grunnskóla vegna þess að þær giftast snemma og fara að eignast börn mjög ungar. Stúlkur hætta námi mun frekar en strákar og margar menningarlegar hefðir koma í veg fyrir að stúlkur fái sömu tækifæri og strákar. Sophie er hetja og fyrirmynd margra stúlkna í heimaþorpi sínu vegna þess að hún hefur brotist til mennta.

„Með því að senda stelpur í skóla, byggjum við menntað þjóðfélag,” segir Sophie og vonast til að öll systkini hennar fái sömu tækifæri til mennta, bæði systur hennar og bræður. Sjálf leggur hún hart að sér við lesturinn og vill flytja aftur til fjölskyldu sinnar í Chiradzulu að námi loknu. Draumur hennar er að verða sjálfstæð. Helst vill hún stofna eigið fyrirtæki til að geta séð sér og fjölskyldu sinni farborða hjálparlaust.