Íslenskur sendifulltrúi á leið til Haítí í dag

14. jan. 2010

Hlín Baldvinsdóttir, með reyndustu sendifulltrúum Rauða kross Íslands, heldur til Haítí í dag.  Hún mun gegna stöðu fjármálastjóra í sérfræðingateymi Alþjóða Rauða krossins sem meta mun þörf á aðstoð næstu vikna og mánaða. Hlín hefur unnið að fjölmörgum verkefnum fyrir Rauða kross Íslands og Alþjóða Rauða krossinn frá árinu 1998, jafnt í þróunarstarfi sem neyðaraðgerðum í kjölfar hamfara.

Tíu neyðarteymi Alþjóða Rauða krossins eru nú á leið á vettvang. Þar er um að ræða sérfræðinga í dreifingu hjálpargagna, heilsugæslu, uppsetningu neyðarskýla, birgðaflutningum og hreinsun vatns, auk sérhæfðra lækna og hjúkrunarfræðinga sem munu setja upp tjaldsjúkrahús í höfuðborginni Port-au-Prince.

Sjálfboðaliðar Rauða kross Haítís hafa unnið sleitulaust frá því að jarðskjálftinn reið yfir á þriðjudag við björgun og aðhlynningu slasaðra, og við að dreifa neyðarbirgðum úr vöruskemmum Rauða krossins í höfuðborginni og úti á landi. Aðstæður til hjálparstarfa eru hrikalegar, og unnið er í kapp við tímann við að koma fólki sem fyrst til aðstoðar.

Samkvæmt upplýsingum Rauða krossins er flugvöllurinn í Port-au-Prince nú opinn fyrir flutningi á hjálpargögnum en annað flug liggur niðri, enda urðu miklar skemmdir á flughafnarbyggingum í skjálftanum. Fært er að mestu um vegi, en rafmagnslaust á stóru svæði og fjarskiptakerfi laskað. Fólk hefur safnast saman á öllum opnum svæðum í almenningsgörðum og við íþróttaleikvanga og brýn nauðsyn er á að koma fólki í skjól sem fyrst. Eins er gífurleg þörf á hjúkrunarfólki þar sem sjúkrahús eru öll yfirfull og víða mikið skemmd. Slasað fólk liggur um allt og þarf á tafarlausri aðstoð að halda.

Alþjóða Rauði krossinn sendi í gærkvöldi frá sér neyðarbeiðni upp á 10 milljónir bandaríkjadollara til að aðstoða um 20.000 fjölskyldur (um 100.000 manns) í níu mánuði.  Neyðarbeiðnin verður endurskoðuð á næstu dögum þegar betri upplýsingar liggja fyrir um hver raunveruleg þörf á aðgerðum er. Það er einmitt hlutverk teymisins sem Hlín vinnur með að meta það.

Rauði kross Íslands minnir á söfnunarsíma sinn 904 1500. Þegar hringt er í númerið bætast við 1.500 kr. við næsta símreikning. Símtalið kostar 79 krónur en Síminn gefur upphæðina til söfnunarinnar. Einnig er hægt er að styrkja hjálparstarf Rauða krossins með því að greiða inn á reikning hjálparsjóðs í banka 0342, hb. 26, reikn. 12, kt. 530269-2649 og með kreditkorti með því að fylla út upplýsingar hér.