Gistir í tjaldbúðum

DV „Maður dagsins"

21. jan. 2010

Friðbjörn Sigurðsson læknir á Landspítala fer til Haítí til að starfa með þýska og finnska Rauða krossinum.
Viðtal við Friðbjörn birtist í DV 20. janúar í „Maður dagsins"

Hver er maðurinn?
„Friðbjörn Sigurðsson.“

Hvernig kom það til að þú ákvaðst að fara til Haítí?
„Rauði krossinn hringdi í mig  síðasta sunnudag og bað mig um að fara fyrir sína hönd að vinna með læknateymi þýska Rauða krosssins. Það er gríðarlega erfitt að segja nei við svona bón.“

Veistu í hvað verkefni þú ferð?

„Ég verð almennur læknir í heilsugæslusveit sem verið er að koma upp þessa dagana. Við vinnum í tjaldbúðum en þar er jafnframt bráðabirgðaspítali með legurýmum og skurðstofum. Þarna verður hægt að taka á móti göngudeildarsjúklingum og sinna þeim eftir bestu getu. Ég gisti svo í tjaldbúðum við spítalann.“

Hvað verður þú lengi?
„Í einn mánuð.“

Þekkir þú eitthvað til á Haítí?
„Ég vann þar fyrir um tuttugu árum. Var á spítala úti á landsbyggðinni sem hluti af mínu sérnámi í lyflækningum í tvo mánuði svo ég hef kynnst lífinu þar örlítið.“

Hvernig leggst það í þig að fara út?

„Það var dálítil spenna þegar ákvörðunin var tekin en nú er ég furðu rólegur. Ég hef fylgst svolítið með landinu eftir að ég var þarna og það er  mikið og gott fólk þarna auk þess að vera fallegt land. Það er erfitt að sjá eymdina og hörmungarnar sem hafa gengið yfir það.“

Ertu byrjaður að undirbúa þig?

„Það hefur ekki gefist mikill tími til þess. Þetta gerist allt svo hratt. Ég held að ég sé bara í góðu standi. Það skiptir máli líka að vera líkamlega hraustur og sterkur.“

Hvernig kemur það við vinnuna þína að rjúka svona fljótt úr henni?

„Ég er með fjölmörg verkefni á Landspítala sem aðrir þurfa nú að bæta á sig. Ég er þakklátur mínu góða samstarfsfólki.“

Eitthvað að lokum?

„Bara að segja frá því hversu margir hafa lagt starfinu lið hér á landi en í gærkvöldu unnu um 50 sjálfboðaliðar við að pakka neyðarpökkum sem á að flytja með flugvélinni sem fer á vegum utanríkisráðuneytisins nú í nótt en þeirra stuðningur skiptir gríðarlegu máli.“