Íslenskur læknir á leið til Haítí ásamt hjálpargögnum Rauða krossins

19. jan. 2010

Friðbjörn Sigurðsson læknir fer á morgun til Haítí þar sem hann mun starfa með læknateymi þýska Rauða krossins í einn mánuð. Friðbjörn vann á sjúkrahúsi á Haítí í tvo mánuði fyrir tæpum 20 árum.

Friðbjörn fer með flugvél á vegum utanríkisráðuneytisins sem fer þangað til að sækja íslensku alþjóðabjörgunarsveitina. Hjálpargögn sem Alþjóða Rauði krossins hefur sérstaklega beðið Rauða kross Íslands að útvega fara einnig með flugvélinni. Um er að ræða 1.000 skyndihjálparpakka sem sjálfboðaliðar Rauða krossins pökkuðu í gær, loftkælibúnaður fyrir skurðstofur, dísilrafstöðvar og annar sjúkrabúnaður.

„Deildir á höfuðborgarsvæðinu brugðust við með stuttum fyrirvara og um 50 sjálfboðaliðar mættu til að pakka skyndihjálpargögnum fyrir fórnarlömb jarðskjálftans og sýna þannig samstöðu sína með sjálfboðaliðum Rauða krossins í Haítí í verki,“ segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Haítí, sem hlúð hafa að sjúkum og slösuðum frá því jarðskjálftinn reið yfir, munu nota skyndihjálpargögnin til að aðstoða íbúa á hamfarasvæðunum en mikill skortur er nú orðinn á sjúkragögnum. Annar búnaður sem Rauði kross Íslands flytur út verður notaður í tjaldsjúkrahúsum og tjaldbúðum hjálparstarfsmanna.

Rúmlega 400 hjálparstarfsmenn Rauða krossins eru nú að störfum í Haítí, þar með talinn hópur 180 sérþjálfaðra sjálfboðaliða í neyðarviðbrögðum frá nágrannaríkjum í Karabíska hafinu og Suður-Ameríku. Sextán alþjóðlegar neyðarsveitir sem sjá um dreifingu hjálpargagna, hreinsun vatns og aðhlynningu slasaðra eru nú á vettvangi. Tjaldsjúkrahús þar sem hægt er að framkvæma flóknar skurðaðgerðir og færanlegar sjúkrastöðvar hafa nú verið settar upp. Um 500 tonn af hjálpargögnum frá Rauða krossinum víðsvegar að úr heiminum verða fluttar til Haítí á næstu dögum.

Fjölmörg fyrirtæki styrktu kaup á eða veittu afslátt af hjálpargögnunum Rauða kross Íslands sem flutt verða beint til Haítí á morgun.