Til hjálparstarfs á Haítí

solveig@frettabladid.is

9. feb. 2010

Frönskukunnátta Lilju Steingrímsdóttur hjúkrunarfræðings varð til þess að hún var beðin um að halda utan til að taka þátt í hjálparstarfi Rauða krossins á Haítí. Hún heldur af stað á morgun. Greinin birtist í Fréttablaðinu 06.02.2010

Segja má að hrein tilviljun hafi ráðið því að Lilja Steingrímsdóttir hjúkrunarfræðingur ákvað að taka þátt í hjálparstarfi á Haítí. „Ég er með öndunarjóga á mínum vegum og var að kynna það í Rauða krossinum um daginn. Þá barst það í tal að ég væri frönskumælandi. Mér var kippt inn á teppi og ég slapp ekki út fyrr en ég var búin að sækja um að fara,“ segir Lilja glaðlega og er þakklát fyrir að geta hjálpað til.

Hún er þó ekki óvön hjálparstarfi því hún hefur tvisvar áður starfað fyrir Rauða krossinn, í Taílandi og Pakistan. „Það er nú langt síðan,“ segir hún og býst fastlega við að aðstæðurnar verði mun verri á Haítí. „Sjúkrahúsið sem ég vann á þá var byggt á gömlum grunni og þar kom fólk sem hafði stigið á jarðsprengjur og verið skotið. Það er allt annað en sá harmleikur sem dunið hefur yfir Haítí. Þar hefur fólk misst allar eigur sínar og jafnvel stóran hluta fjölskyldunnar líka. Kvölin er því bæði andleg og líkamleg,“ áréttir hún.

Lilja flýgur af stað um miðjan dag á morgun til New York og fer þaðan til Santo Domingo. „Þaðan förum við með einhverju farartæki til Port-au-Prince. Það er svo mikil örtröð á þessum litla flugvelli í borginni að aðeins fjórar flugvélar geta lent á klukkutíma og það er upppantað næstu tvo mánuðina,“ segir hún.

Lilja verður í mánuð á Haítí og er það talinn nógu langur tími fyrir eina manneskju enda eru aðstæður erfiðar og vinnan mikil. „Rauði krossinn fær um þúsund nýja sjúklinga á dag og reynir að sinna þeim eftir bestu getu,“ segir Lilja sem mun starfa í tjaldsjúkrahúsi í einum fátækasta hluta Port-au-Prince sem fór einna verst í hamförunum.

Innt eftir því hvort hún kvíði ferðalaginu segir hún það koma í bylgjum. Hún hefur þó ekki haft mikinn tíma til að velta því fyrir sér enda var brottförin ákveðin á miðvikudaginn var og ganga þarf frá mörgu og undirbúa áður en lagt er í hann. „Ég veit í raun lítið hvað ég er að fara út í. Ég hef fengið mikið af upplýsingum frá Rauða krossinum og hlutirnir eru vel skipulagðir af hans hálfu en maður veit ekkert hvernig þetta verður fyrr en komið er á staðinn,“ segir Lilja sem dags daglega starfar á gjörgæsludeild Landspítala í Fossvogi. Hún segir vinnuveitendur sína dásamlega og lítið mál hafi verið að fá leyfi til að fara.

Í dag heldur Lilja áfram að undirbúa ferðina. Eitt af verkefnunum er að setja niður í töskurnar. Hvað ætli maður þurfi að hafa með sér í slíka ferð? „Ekki mjög mikið. Bómullarföt, peysu, regnföt, góða skó því það er víst ekki góð færð í kringum vinnustaðinn, malaríuvörn, sólarvörn og slíkt því það er heitt þarna suður frá,“ telur hún upp og heldur að því búnu áfram undirbúningi ferðarinnar.