Sálrænn stuðningur á Haítí: Að græða hin ósýnilegu ör

Héðinn Halldórsson, Áfallasetri Alþjóða Rauða krossins í Kaupmannahöfn

3. feb. 2010

„Hvar byrjar maður? Hvernig lýsir maður aðstæðum fólks í neyð, fólks sem er á vergangi, og hefur misst fjölskyldu sína, heimili, fyrirvinnu, lífsafkomu, og allar eigur sínar? Hvernig vinnur fólk úr sársaukanum sem felst í því að í rústum bygginga séu þúsundir grafnir, úr vitneskjunni að handan götunnar hafi 100 hjúkrunarfræðinemar látið lífið og liggi undir brakinu?"

Ea Akasha sem sinnir sálrænum stuðningi Rauða krossins í Port-au-Prince spyr sjálfa sig þessara áleitnu spurninga á hverju kvöldi þegar hún leggst til hvílu og reynir að gera sér grein fyrir umfangi hamfaranna af völdum jarðskjálftans á Haítí.

„Mér finnst erfitt að lýsa því sem ég verð vitni að á hverjum degi í starfi mínu hér,” segir hún.

Ea kom til Haítí aðeins nokkrum dögum eftir að jarðskjálftinn reið yfir þann 12. janúar síðastliðinn. 

Sheila Gabriel sjálfboðaliði haítíska Rauða krossins heimsækir unga stúlku sem slasaðist í jarðskjálftanum. Auk líkamlegra meiðsla glíma börnin við gríðarlegt andlegt áfall.

„Á hverjum degi vinn ég ásamt sjálfboðaliðum Rauða krossins á Haítí að því að skipuleggja hvernig sálrænum stuðningi skuli háttað, og reyni að finna einhvern sem getur séð um börnin.”

Það er gífurlegur fjöldi barna án nokkurrar umsjár á götum Port-au-Prince. Sum hafa misst foreldra sína, önnur orðið viðskila við fjölskyldur sínar. Þau eiga öll eitt sameiginlegt – að þjást af gífulegri áfallastreitu vegna atburða liðinna vikna.

Þau þarfnast umönnunar. Og þessa dagana er það helsta hlutverk Eu og sjálfboðaliða Rauða krossins að hlúa að þeim og veita þeim sálrænan stuðning.

„Tveggja ára stúlka kom í okkar umsjá í gær,” útskýrir Ea.  „Hún er fötluð og getur ekki hreyft sig, en það er enginn sem getur sinnt henni, gefið henni að borða og talað við hana nema sjálfboðaliðarnir hjá Rauða krossinum.”

Þegar Ea kom til Haítí var hennar fyrsta verk að þjálfa sjálfboðaliða Rauða krossins á staðnum. Flestir þeirra hafa sjálfir orðið fyrir miklum missi af völdum jarðskjálftans og búa við slæm skilyrði. Engu að síður hafa þeir tekið sér það hlutverk að hjálpa öðrum til að komast í gegnum þessa erfiðu reynslu. „Maður sér strax árangur af starfi þeirra,” segir Ea.

Þetta er í fyrsta sinn sem Rauða kross hreyfingin hefur samþætt sálrænan stuðning inn í neyðaraðgerðir samtakanna. Þannig vinna sendifulltrúar og sjálfboðaliðar í sálrænum stuðningi, læknar og hjúkrunarfólk hlið við hlið við að græða bæði hinar sjáanlegu og ósýnilegu afleiðingar hamfaranna á Haítí.