Tveir íslenskir hjúkrunarfræðingar til Haítí á vegum Rauða krossins

4. feb. 2010

Hjúkrunarfræðingarnir Lilja Steingrímsdóttir og Maríanna Csillag eru á leið til Haítí þar sem þær munu starfa á tjaldsjúkrahúsi þýska og finnska Rauða krossins. Tjaldsjúkrahúsið sinnir 700 sjúklingum á dag, og er staðsett við íþróttaleikvang í Carrefour, einu fátækasta hverfi höfuðborgarinnar Port-au-Prince, en þar hafa tugþúsundir manna leitað skjóls við mjög slæmar aðstæður.

Lilja heldur til Haítí næsta sunnudag, 7. febrúar. Hún starfar sem hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild Landspítalans. Lilja hefur tvisvar áður starfað fyrir Rauða krossinn, á Taílandi og í Pakistan.

Maríanna er einn reynslumesti sendifulltrúi Rauða kross Íslands og hefur starfað við fjölmargar neyðaraðgerðir Rauða kross hreyfingarinnar í Afríku, Asíu og Evrópu. Maríanna fer til Haítí 15. febrúar.

Tveir sendifulltrúar Rauða kross Íslands fóru til starfa á Haítí nokkrum dögum eftir að jarðskjálftinn reið yfir. Hlín Baldvinsdóttir starfar með neyðarsveit Alþjóða Rauða krossins sem sér um skipulagningu neyðaraðgerða fyrstu vikurnar. Friðbjörn Sigurðsson læknir starfar einnig með heilsugæslusveit þýska Rauða krossins. Þau munu að öllum líkindum halda heim seinni partinn í febrúar.

Neyðaraðgerðir Rauða kross hreyfingarinnar á Haítí verða stöðugt umfangsmeiri.  Vatnshreinsistöðvar Rauða krossins framleiða um 1 milljón lítra af hreinu vatni á dag, og vatnsdreifikerfi hefur verið sett upp í 88 búðum þar sem fólk hefst við. Þúsundir manna fá læknisaðstoð á hverjum degi, og heilsugæslusveitir Rauða krossins geta sinnt um 340.000 manns.  Þúsundir manna fá teppi, moskítónet, hreinlætisvörur og eldhúsáhöld í hverri viku, og eins hefur Rauði krossinn tekið þátt í matvæladreifingu.