Þrír íslenskir sérfræðingar í uppbyggingarteymi Alþjóða Rauða krossins á Haítí

9. feb. 2010

Sigríður Þormar, Hrafnhildur Sverrisdóttir og David Lynch halda áleiðis til Haítí í dag. Þau eru fulltrúar Rauða kross Íslands í alþjóðlegu teymi sem skipuleggur uppbyggingarstarf Rauða kross hreyfingarinnar á Haítí á næstu þremur árum. Teymið samanstendur af 24 sérfræðingum í heilbrigðismálum, birgðastjórnun, neyðarvörnum, neyðarskýlum, lífsafkomu og uppbyggingu samfélaga eftir áföll.

Sigríður Þormar er hjúkrunarfræðingur og sálfræðingur með áratugareynslu af áfallahjálp og sálrænum stuðningi í kjölfar hamfara. Hún hefur starfað fyrir Rauða kross Íslands og Alþjóða Rauða krossinn víða um heim, og þjálfað sjálfboðaliða fjölda landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans í sálrænum stuðningi.

Hrafnhildur Sverrisdóttir er sérfræðingur í mannréttindum og þróunarfræðum. Hún var sendifulltrúi Rauða kross Íslands á Fílabeinsströndinni og Búrúndí, starfaði með íslensku friðargæslunni í Afganistan, og með Sameinuðu þjóðunum í Makedóníu og Kosovó.

David Lynch hefur starfað á alþjóðasviði Rauða kross Íslands sem verkefnisstjóri í neyðarvörnum og neyðarviðbrögðum í kjölfar hamfara, og á neyðarvarnaskrifstofu Alþjóða Rauða krossins í Genf. Hann var sendifulltrúi Rauða kross Íslands um árabil í Asíu, Miðausturlöndum, Tsétsníu og Kákasuslöndunum.

Hlutverk þremenninganna er að veita faglega ráðgjöf hvert á sínu sviði og skipuleggja uppbyggingarstarf Rauða kross hreyfingarinnar á Haítí að neyðaraðgerðum loknum. Teymið mun kortleggja getu annarra hjálparsamtaka, stjórnvalda og Rauða krossins á Haítí, og hvar sérfræðiþekking og mannauður Rauða kross hreyfingarinnar nýtist best í uppbyggingunni.  Áætlun þeirra mun liggja fyrir innan 3 vikna.

Sigríður, Hrafnhildur og Davíð halda utan kl. 14:00 í dag, en verða við á landskrifstofu Rauða krossins að Efstaleiti 9 milli kl. 13:00-14:00. Hægt verður að fá viðtöl við þau á skrifstofunni þeim tíma.

Fyrir eru 3 sendifulltrúar Rauða kross Íslands á Haíti: Hlín Baldvinsdóttir fjármálastjóri neyðaraðgerða Alþjóða Rauða krossins, Friðbjörn Sigurðsson læknir, og Lilja Steingrímsdóttir hjúkrunarfræðingur. Maríanna Csillag hjúkrunarfræðingur fer einnig til starfa á Haítí nú um helgina.