Sex íslenskir hjálparstarfsmenn Rauða kross Íslands á leið til Haítí

12. feb. 2010

Sex íslenskir hjálparstarfsmenn eru á leið til Haíti nú um helgina að beiðni Alþjóða Rauða krossins.  Mánuður er nú liðinn frá því jarðskjálftinn mikli reið þar yfir, og hefur Alþjóða Rauði krossinn hækkað neyðarbeiðni sína úr 12 milljörðum íslenskra króna í 25 milljarða.

Fjórir hjúkrunarfræðingar, Áslaug Arnoldsdóttir, Maríanna Csillag, Erla Svava Sigurðardóttir og  Lilja Óskarsdóttir munu starfa við tjaldsjúkrahús þýska og finnska Rauða krossins í fátækrahverfinu Carrefour í Port-au-Prince.  Kristjón Þorkelsson verður ábyrgur fyrir skipulagningu vatnshreinsimála á meðan á neyðaraðgerðum stendur, og Sólveig Björk Sveinbjörnsdóttir gengur til liðs við alþjóðlegt sérfræðiteymi sem nú vinnur að skipulagningu uppbyggingarstarfs Rauða kross hreyfingarinnar á Haítí.

Áslaug og Maríanna eru meðal reyndustu sendifulltrúa Rauða kross Íslands og hafa starfað við fjölda neyðaraðgerða fyrir Rauða kross hreyfinguna í Afríku, Evrópu, Asíu og Miðausturlöndum.  Lilja, sem er hjúkrunarfræðingur og guðfræðingur, hefur unnið fyrir Rauða krossinn og önnur hjálparsamtök í Súdan, Bosníu og Eþíópíu, en Erla Svava fer nú í fyrsta sinn sem sendifulltrúi Rauða kross Íslands.

Sólveig Björk er félagsfræðingur og hefur unnið með íslensku friðargæslunni, Sameinuðu þjóðunum og öðrum hjálparsamtökum í Sri Lanka, Sýrlandi og Súdan.  Þetta er einnig í fyrsta skipti sem hún fer sem sendifulltrúi Rauða krossi Íslands.

Kristjón hefur starfað sem sendifulltrúi Rauða krossins frá árinu 1991, og hefur víðtæka reynslu af vatns- og hreinlætisverkefnum í Miðausturlöndum og Afríku, auk þess sem hann starfaði fyrir íslensku friðargæsluna í Kosovo.

Rauði kross Íslands hefur þar með sent 12 hjálparstarfsmenn til starfa á Haítí, en fyrir eru Lilja Steingrímsdóttir hjúkrunarfræðingur sem einnig starfar á tjaldsjúkrahúsinu í Carrefour, Sigríður Þormar, Hrafnhildur Sverrisdóttir og David Lynch, sem starfa með alþjóðlegu sérfræðingateymi um skipulagningu uppbyggingarstarfsins, Friðbjörn Sigurðsson læknir í sem vinnur með heilsugæslusveit þýska Rauða krossins, og Hlín Baldvinsdóttir sem hefur starfað við fjármálastjórn neyðaraðgerðanna.  Hlín heldur aftur til Íslands á sunnudag, en þá hefur hún verið mánuð á vettvangi.