Erfitt en gott að gera gagn

Karl Blöndal Morgunblaðinu

23. feb. 2010

Friðbjörn Sigurðsson læknir var í rúman mánuð á vegum Rauða krossins í Port au Prince í Haítí. Skilvirkt starf.  Álagskvillar algengir. Fólk upplifir skjálftann aftur og aftur og getur ekki sofið. Greinin birtist í Morgunblaðinu 23.02.2010.

Friðbjörn Sigurðsson læknir kom heim frá Haítí á laugardag eftir að hafa verið þar að störfum í um mánuð. Hann segir að miklu hafi skipt að vita að hann væri að gera gagn, en erfitt hafi verið að horfa upp á munaðarlaus börn og vita að fyrir stóran hóp fólks væru úrræðin engin.

Þegar Friðbjörn kom til Haítís rúmri viku eftir jarðskjálftann 12. janúar var nánast ekkert líf á götunum. „Það var voðalega lítið um að vera, einstaka verslun að fara af stað,“ segir hann. „Fyrst í stað þorði fólk heldur ekki að vera inni í húsum sínum vegna þess að það var lafhrætt. Töluverður fjöldi húsa var alveg hruninn, en hús, sem virtust vera heil, voru það kannski alls ekki. Nánast enginn, sem ég talaði við í Port au Prince, þorði að sofa í húsinu sínu.“

Friðbjörn þekkir til á Haítí. Árið 1991 þegar hann var í sérnámi í lyflækningum við Yale-háskóla í Bandaríkjunum fór hann í tæpa tvo mánuði til landsins. „Ég var á Albert Schweitzer-sjúkrahúsinu, sem er í Artibonite-dalnum um 100 km frá Port au Prince,“ segir hann. „Það var heilmikil lífsreynsla og ég hef því ákveðnar taugar til Haítís þannig að þegar Rauði krossinn hafði samband við mig núna var auðvelt að ákveða að skella sér í þetta verkefni.“

Friðbjörn fór til Haítís á vegum Rauða kross Íslands og var þar í samvinnu við Rauða kross Þýskalands. „Þeir voru að koma sér upp tveimur starfsstöðvum, annars vegar heilsugæslueiningu í miðborg Port au Prince þar sem veitt var grunnþjónusta í tjöldum og hins vegar stórum spítala í nágrannaborginni Carrefour,“ segir hann.

Neyðin kennir ... „Hér hefur drengur verið settur í strekk, væntanlega út af lærleggsbroti, og líklega þarf hann að vera svona í margar vikur," segir Friðbjörn. „Þegar hefðbundin tæki eru ekki til staðar tekur hugvitsemin við, í þessu tilfelli grjótpokar og umbúðakassar."

Friðbjörn átti upphaflega að vinna á spítalanum, en heilsugæslan hafði verið opnuð daginn áður en hann kom út þannig að þangað fór hann til starfa ásamt öðrum lækni, fjórum hjúkrunarfræðingum, ljósmóður og meinatækni. Smám saman fjölgaði síðan starfsfólki eftir því sem farið var að ráða fólk af staðnum, lækni og hjúkrunarfræðinga. „Tilgangur verkefna Rauða krossins er að koma með hjálp, byggja upp aðstöðu og koma í hendur fólks af staðnum þannig að það geti leyst Rauða krossinn af hólmi. Þó má reikna með að heilsugæsluverkefnið taki nokkra mánuði og spítalinn gæti tekið tvö ár,“ segir hann.

Þegar Friðbjörn kom til Haítís rúmri viku eftir jarðskjálftann var farið að draga verulega úr því að fólk leitaði lækninga vegna áverka af völdum hans. Hins vegar fjölgaði tilfellum vegna fylgikvilla á borð við sýkingar í sárum og beinbrotum.

„Öndunarfærasýkingar vegna ryksins, sem enn var í loftinu löngu eftir skjálftann, voru algengar, kvef, bronkítis og lungnabólga,“ segir Friðbjörn. „Mikið var um húðsýkingar, niðurgangspestir og kvilla, sem má tengja beint álaginu vegna hamfaranna. Fólk upplifði skjálftann aftur og aftur, gat ekki sofið og hrökk í kút við minnstu hreyfingu, þurfti ekki meira til en að bíll keyrði framhjá. Allt niður í ung börn, sex, átta ára, komu með kviðverki og önnur streitueinkenni.“

Í heilsugæslunni höfðu Friðbjörn og samstarfsfólk hans einföldustu lyf og aðstöðu. „Við gátum meðhöndlað malaríu og niðurgangspestir, sem ung börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir,“ segir hann. „Í nokkrum tilfellum komu til okkar börn, sem voru nær dauða en lífi vegna vatnsskorts. Við gátum gefið þeim vökva í æð og um munn.“

Viðhorf alltaf jákvætt
Í heilsugæslunni var hins vegar ekki myndgreiningaraðstaða og mjög takmarkað hvað hægt var að gera við alvarlegri brotum. „Við gátum ekki neglt ef um alvarlegt brot var að ræða og til dæmis var aðeins hægt að setja mjaðmarbrot í strekk, sem gæti þýtt örkuml til æviloka,“ segir Friðbjörn. „En það verður að gæta þess að heilbrigðisþjónustan var vanbúin fyrir og fólk á því að venjast að fá afar litla ef einhverja heilbrigðisþjónustu.“

Friðbjörn segir að væntingar Haítíbúa til heilsugæslunnar hafi verið mjög raunsæjar og brugðist hafi verið við þeim með þakklæti.
„Viðhorf heimamanna til okkar starfa var alltaf mjög jákvætt,“ segir hann. „Hvað varðar öryggi og ofbeldi urðum við ekki vör við nein vandamál, þótt þau geti komið upp fyrirvaralaust. Ég veit ekki til þess að neinn Rauðakrossmaður hafi lent í vandamálum.“

Það kom Friðbirni á óvart hvað fólk var bjartsýnt þrátt fyrir hörmungarnar og hafði haldið í skopskynið. „Þó höfðu flestir misst heilmikið, einhvern nákominn ættingja, flestir eru húsnæðislausir og hafa ekki hugmynd um hvað framtíðin ber í skauti sér,“ segir hann. „Mánuði eftir jarðskjálftann var óljóst hvernig uppbyggingin færi fram og mörg brýn, óleyst vandamál. Sáralítið var komið upp af viðeigandi tjöldum fyrir fólk í tjaldbúðum. Nú er regntíminn að byrja. Síðustu nóttina mína í Haítí var ausandi rigning og allt fór á flot í tjaldbúðunum. Sjúklingarnir mínir síðasta daginn höfðu margir hverjir ekki sofið dúr vegna þess að þeir gátu hvergi legið, þurftu að standa alla nóttina. Þegar regntíminn byrjar fyrir alvöru verða vandamálin gríðarleg.“

Stjórnkerfið í Haítí var veikt fyrir og innviðir landsins virtust alveg hrynja í skjálftanum.

„Það fyrsta sem maður tók eftir á flugvellinum í Port au Prince var að bandaríski herinn hafði yfirtekið stjórnina,“  segir hann. „Þar var engin vegabréfaskoðun og hver og einn þurfti að afhlaða sína flugvél og sjá um alla þjónustu. Fyrstu dagana, sem ég var þarna, sá ég aldrei lögreglumenn eða hermenn frá Haítí, en þegar leið á dvölina fór að bera meira á þeim. Ráðherrar úr ríkisstjórninni létust í jarðskjálftanum, forsetinn var heimilislaus og allt stjórnkerfið hrundi. Þó var ákveðið að heimamenn skyldu leiða uppbygginguna með aðstoð frá hinum ýmsu hjálparsamtökum. Sameinuðu þjóðirnar voru þarna fyrir með friðargæslu, en vandamálið þar var manntjónið, sem þeir urðu fyrir í skjálftanum og lamaði starfsemi þeirra til að byrja með. Þó varð maður ekki var við ofbeldi eins og sagt var frá í vestrænum fjölmiðlum, að þarna væru glæpagengi út um allt og óöld. Hins vegar sögðu sjúklingarnir manni oft að þeir væru hræddir við að sofa úti á nóttunni vegna gripdeilda.“

Reynsla Rauða krossins
Friðbjörn segir að hann hafi átt von á að það yrði erfitt að koma til starfa við hinar hörmulegu aðstæður á Haítí, en sú hafi ekki verið raunin. „Maður fann að maður nýttist vel og störf manns voru vel metin,“ segir hann. „Ég fann ekki fyrir álagseinkennum eða streitu og líður vel eftir heimkomuna. En hörmungarnar eru gríðarlegar og vitanlega tekur á að sjá ungbörn, sem eru orðin munaðarlaus, og vita að ekki verður um nein úrræði að ræða fyrir stóran hóp af fólki. Einnig skiptir miklu máli að vinna með öflugum samstarfsmönnum og það skiptir sköpum að vera í samstarfi við Rauða krossinn, þar sem reynsla af slíkum verkefnum er mikil. Þarna var mikið af fólki, sem margsinnis hefur verið kallað á vettvang þegar hamfarir hafa dunið yfir, og þó heyrði ég á mörgum að þetta væri eitt erfiðasta verkefni, sem hjálparstofnanir hafa þurft að glíma við. Þýski Rauði krossinn, sem er greinilega gríðarlega vel skipulagður, var fyrstur að koma með grunnheilsugæslueiningu og náði að reisa spítala á skömmum tíma. Þá fann ég að það var gott fyrir Íslending að koma á eftir íslensku rústabjörgunarsveitinni. Hún hafði greinilega getið sér gott orð á Haítí.“

Vart til hliðstæða
Friðbjörn segir að afleiðingarnar af hamförunum í Haítí eigi sér vart hliðstæðu. „Tökum til dæmis hamfarir eins og flóðin í Suðaustur-Asíu,“ segir hann. „Sautján þjóðir urðu fyrir tjóni vegna flóðbylgjunnar, en innviðir í þessum löndum héldust, höfuðborgir þeirra lögðust ekki í rúst, heilbrigðisþjónustan hélt áfram að starfa hjá þessum þjóðum þannig að ef eitthvað gerðist á hamfarasvæðunum, sem hjálparsamtök réðu ekki við, voru stofnanir innan þess ríkis, sem gátu sinnt vandamálunum. Á Haítí er ekkert um það að ræða, höfuðborgin er í lamasessi og stórt svæði umhverfis hana. Sjúkrahúsin úti á landi eru illa búin. Það er því enginn kostur á að senda fólk í burtu í viðeigandi meðferð. Mér skilst að hamfarirnar þarna séu sérstakar vegna þess að í fyrsta skipti á síðari tímum verður höfuðborg fyrir svona miklum skakkaföllum og allt stjórnkerfið hrynur - stjórnkerfi, sem var ekki sterkt fyrir.“

Þeir sem hafa verið á átaka- og hamfarasvæðum eiga oft erfitt með að koma reynslu sinni til skila til fólks, sem ekki hefur upplifað slíkt. Friðbjörn þekkir þessa umræðu:

„Ég held að þetta sé ólýsanlegt og maður heyrir á reyndu Rauðakrossfólki að það gefst eiginlega upp á að ræða reynslu sína,“ segir hann. „Einn sagði við mig að aðalástæðan til að fara aftur í svona verkefni hjá Rauða krossinum væri að hitta aftur fólk, sem væri hægt að ræða þessa reynslu við og skildi hana.“ mbl.is/fréttir