Námskeið fyrir verðandi sendifulltrúa

8. apr. 2010

Á þriðja tug manna útskrifaðist af námskeiði fyrir verðandi sendifulltrúa, sem Rauði kross Íslands hélt í Munaðarnesi á dögunum. Námskeiðið er fyrir þá sem vilja vera á svokallaðri veraldarvakt, sem er úkallslisti Rauða krossins fyrir alþjóðlegt hjálparstarf.

Námskeiðið var með breyttu sniði en áður. Skiptist það nú í tvo hluta þar sem þátttakendur þurfa að fara í gegnum námskeið á vefnum sem lýkur með prófi og standist þeir það próf heldur þjálfunin áfram á vikunámskeiði í Munaðarnesi. Í fyrsta skiptið síðan 2002 voru þátttakendur allir frá Íslandi fyrir utan einn sem kom alla leið frá Bangladess.

Fulltrúar frá Alþjóðaráði Rauða krossins, Valerie Studer, og Alþjóðasambandi Rauða kross félaga, Martin Fisher, fluttu fyrirlestra á námskeiðinu og stjórnuðu verklegum æfingum ásamt starfsfólki og sendifulltrúum Rauða kross Íslands. Þátttakendur unnu í hópum við raunhæf verkefni og vinnudagurinn var langur eða frá kl. 9 á morgnana til kl. 22  flest kvöldin.

Á námskeiðinu kynnast tilvonandi sendifulltrúar starfi landsfélaga Rauða krossins, Alþjóðasambandsins og Alþjóðaráðsins. Auk þess er lögð áhersla á að kynna starf á vettvangi og margvíslegum álitaefnum sem upp koma. Markmiðið með námskeiðinu er að gera tilvonandi sendifulltrúa sem best í stakk búna til að sinna hjálparstarfi á vettvangi vegna neyðarástands í kjölfar náttúruhamfara eða vegna stríðsátaka en líka til að starfa að langtíma þróunarsamvinnu með öðrum landsfélögum Rauða krossins eða Rauða hálfmánans. Þeir fá fræðslu um heilsufarsvandamál sem upp geta komið, um öryggismál og um daglegt líf sendifulltrúa á vettvangi.

Hamfararnir á Haítí settu mark sitt á námskeið varðandi innihald fyrirlestra og umræðna og þátttakendur voru fleiri úr heilbrigðisstéttum en áður á sendifulltrúanámskeiðum.