„Við náum aldrei að sinna öllum þeim sem þurfa á aðstoð að halda.” Bréf frá sendifulltrúa Rauða krossins á Haítí

Sigurjón Valmundsson

26. apr. 2010

Sigurjón Valmundsson sjúkraflutninga- og slökkviliðsmaður fór til Haítí 13. mars. Sigurjón starfar við neyðarsjúkrahús norska Rauða krossins í Petit Goave, um það bil 70 kílómetra frá Port-au-Prince.

Neyðarsjúkrahúsið er í gamalli spítalabyggingu sem hefur verið lokuð að mestu leyti frá því fyrir jarskjálftana, vegna fjárskorts og stjórnmálaátaka. Við erum með slysadeild, göngudeildarþjónustu,  skurðstofur, legudeild, sálgæsluþjónustu og síðast en ekki síst einingu sem er kölluð Community Health - heilsugæsla og snýr meðal annars að fræðslu út í samfélaginu, skyndihjálp ofl. svo ég nefni það helsta. Við vinnum með hjúkrunarfólki frá Haiti á hverjum degi og erum einnig í samvinnu  með öðrum landsfélögum Rauða krossins, ásamt ýmsum alþjóðlegum samtökum. Starfsumhverfið er af þessum sökum mjög fjölbreytt og áhugavert.

Grunnþjónusta skiptir mestu máli
Við leggjum megináherslu á grunnþjónustu og reynum að sinna sjúklingum eins vel og hægt er við þessar aðstæður. Ég vinn náið með mjög fjölbreyttum hópi fólks, Norðmönnum, Dönum og frönskumælandi Kanadamönnum. Starfsandinn er mjög góður og öryggisástand er ekki slæmt, en þó er fylgst náið með, því hlutirnir geta breyst fljótt. Eftir klukkan  6 á kvöldin er útgöngubann, nema til að sinna neyðartilfellum á sjúkrahúsinu. Ef  við erum kölluð út, þá er það vegna alvarlegra slysa, keisaraskurða, eða aðgerða sem bráðliggur á. Þá fer fyrframskilgreindur mannskapur af stað, en aðrir fá að hvílast áfram. 

Keisaraskurður um miðja nótt
Vinnudagarnir eru mislangir, en samt allir langir.... Um daginn vorum við kallaður út klukkan 3 um nótt til að aðstoða við keisaraskurð. Ég tók á á móti barninu ásamt svæfingarlækninum.  Barnið var ekki með sprækasta móti, en það sem við viljum sjá hjá nýfæddum börnum er að þau orgi hátt og hressilega, sem er merki um góða öndun. Það þurfti að hjálpa þessum strák aðeins, soguðum vökva úr vitum hans, veittum öndunaraðstoð og örvuðum svo hann færi að anda kröftuglega sjálfur. Þetta getur reynt á taugarnar því að nýfædd börn eru svo lítil og hjálparlaus. Við vorum  ánægðir ég og Nils svæfingarlæknir þegar strákurinn fór að kvarta  hástöfum undan meðferðinni. Eftir keisaraskurðinn kíkti ég á slysadeildina og hjálpaði Georg, lækni frá Haítí að sinna ungum dreng í öndunarerfiðleikum vegna asthma. Það fór allt saman á besta veg og lítið annað að gera þá stundina, en sumar nætur koma inn sjúklingar sem hafa alvarlega áverka sem þarf að hjálpa tafarlaust. 

Eftir þetta fer ég aftur heim á hótel, fæ mér morgunmat, oftast milli 6 og 7.  kl 7:10 er fundur á hótelinu með öllu liðinu. Þar er farið yfir það sem er að gerast í hverri einingu, hvaða breytingar hafa átt sér stað á samstarfi eða öðrum þáttum starfsins. Um átta leytið komum við svo aftur á spítalann, þá þegar eru raðir af fólki út um allt sem hafa verið að myndast frá því 6 um morguninn og jafnvel lengur því sumir eiga um langan veg að fara og eru því komnir til okkar kvöldið áður.  Slysadeildin okkar er yfirleitt vel mönnuð. Flesta daga höfum við 3 til 4 túlka til aðstoðar. Oftast erum við þrír erlendir starfsmenn á staðnum. Auk mín er einn norskur hjúkrunarfræðingur og bráðatæknir ásamt  lækni. Þá mánuði sem sjúkrahúsið hefur starfað með þessu sniði hafa frönskumælandi heimilislæknar með reynslu af bráðaþjónustu sinnt deildinni, en franskan kemur þeim þó bara hálfa leið því flestir þeirra sem við sinnum tala eingöngu Creole sem er mállýskan sem flestir á Haítí tala. Þeir sjúkdómar  sem við sjáum er töluvert frábrugðnir því sem við eigum að venjast  heima,  malaría, húðsýkingar og  snýkjudýr ýmiskonar svo fátt eitt sé nefnt. Mikið er af áverkum og sárum af ýmsum stærðum og gerðum. Sumir áverkanna eru einhverra daga gamlir  og stundum búið að gera að þeim með heimatilbúnum áburði sem yfirleitt er gerður úr svartbaunastöppu, tannkremi eða handáburði. 

Oft koma sjúklingar of seint á sjúkrahúsið
Margir áverkanna eru vegna slysa en því miður er ekki mikið af fyrirbyggjandi verkefnum varðandi slysavarnir í gangi. Við reynum að fræða þá sem koma til okkar um einfalda hluti, hættur á heimilum, notkun hjálma, rétt viðbrögð við slysum, eins og t.d.  að leita tafarlaust aðstoðar eftir bruna eftir heitt vatn eða eld. Það kemur oft fyrir að menn leita ekki aðstoðar nógu fljótt eftir slys og veikindi. Oft kemur fólk ekki með ættingja sína fyrr en of seint og sjúkddómarnir eða veikindin eru of langt gengin.  Margir þeirra sem deyja eru í kringum þrítugt og hafa fengið malaríu, eða heilahimnubólgu. Malaría er landlæg á Haítí, og daglega koma 20-40 manns á sjúkrahúsið vegna þessa. Ef sjúklingurinn kemur til okkar snemma þá er meðferðin tiltölulega einföld. Flugnanet eru almennt ekki notuð hér, bæði vegna fjárskorts og aðgengis sem veldur því að malaría er mjög útbreidd.

Náið samstarf við lækna frá Haítí
Þegar klukkan er orðin fimm tökum við saman en í stað okkar taka við læknar frá Haítí. Hluti af starfi okkar felst í því að samþætta okkar og þeirra  á slysadeildinni og kenna þeim á ýmsan búnað sem þeir geta nýtt sér í sínu starfi. Um leið miðla þeir til okkar af reynslu sinni og staðbundinni þekkingu. Við leggjum mikla áherslu á þetta samstarf og það hefur gengið mjög vel. Við náum aldrei að sinna öllum þeim sem bíða eftir þjónustu okkar þannig að stór hluti af starfi mínu er að forgangsraða sjúklingum. Sumir eiga ekkert erindi á sjúkrahúsið, aðrir eru með skrámur sem þeir geta bundið um sjálfir en flestir þurfa á brýnni aðstoð að halda.

Fólk er almennt ánægt með þá þjónustu sem við veitum, hvort sem við bindum um sár þeirra eða útskýrum bara fyrir því hvað veldur jarðskjálftum.

Læt þetta duga í bili, bið kærlega að heilsa öllum, Kv, Sigurjón V.    

Skoðun og mat.
Með samstarfsfólki á slysadeildinni.
Spáð í meðferð.