Langtímauppbygging verður í að minnsta kosti tíu ár ef ekki lengur

Kristjón Þorkelsson sendifulltrúa Rauða kross Íslands á Haítí

5. maí 2010

Haítí var eitt fátækasta ríki í vesturheimi fyrir jarðskjálftann þann 12.  janúar 2010. Byggingar og veitukerfi voru ekki upp á það besta, sérstaklega í þéttbýli. Aðallega var byggt úr holsteini á milli súluuppistaða, mjög takmörkuð járnabinding var í burðarvirkjum og gæði steypu léleg. Á sumum svæðum þar sem skjálftinn reið yfir sér maður steinsteypu sem hreinlega varð að dufti. 

Eftir skjálftann var áætlað að um það bil þrettán hundruð þúsund manna væru á vergangi. Í þéttbýli hefur fólk komið sér fyrir í óskipulögðum, yfirsetnum búðum sem eru aðalega gerðar úr plastdúkum og prikum. Í flestum tilfellum er vandamál að komast í vatn en það þarf tankbíla til að flytja vatn til fólksins. Á stöku stað höfum við getað tengt inn á vatnsveituna en hún var í slæmu ásigkomulagi fyrir. Hreinleiki vatnsins er ekki öruggur svo vatnið er hreinsað og klóri bætt í það. Rauði krossinn útvegar u.þ.b tvær milljónir lítra af vatni í yfir níutíu búðum í Port au Prince og Leogane. 

Salernismálin eru enn stærri og alvarlegri vandamál. Í upphafi voru kamrar settir á skurði til að ráða við bráðaþörfina. Nú eru skurðirnir að fyllast og það sem verra er að þegar rignir fyllast skurðirnir af regnvatni og flæða yfir bakkana með tilheyrandi mengun. Þetta vandmál óttast menn mikið þegar regntíminn byrjar fyrir alvöru því þá eykst hættan á útbreiðslu sjúkdóma á borð við kóleru, taugaveiki, mislinga og malaríu, sem eykst alltaf á þessum tíma. Bráðabirgðaskýli sem oft er komið upp undir slíkum kringumstæðum hafa ekki enn verið sett upp aðallega vegna óvissu á landyfirráðum (eignarhald er mjög illa skráð hér ef það er skráð yfir höfuð). Hafa ber huga að hér koma fellibyljir á hverju ári með mismiklum skaða í kjölfarið. Þörf fyrir neyðaraðstoð er ekki í nokkra mánuði heldur í tólf mánuði í það minnsta.

Langtímauppbygging verður í að minnsta kosti tíu ár ef ekki lengur.

Svona reynir fólk að bjarga sér í búðunum, allt timbur og annað efni er nýtt.
Ungviðið lifir við erfiðar aðstæður.
Mörg hús eru ekki hrunin en mikið skemmd.
Önnur hús eru hrunin til grunna.