Tveir hjúkrunarfræðingar halda til starfa fyrir Rauða krossinn á Haítí og í Pakistan

14. maí 2010

Tveir íslenskir hjúkrunarfræðingar halda næstu daga til starfa fyrir Rauða krossinn á sjúkrahúsum á Haítí og í Pakistan. 

Erla Svava Sigurðardóttir, sem er nýkomin heim frá störfum á Haítí, fer til Peshawar í Pakistan þann 18. maí þar sem hún mun starfa á sjúkrahúsi Alþjóða Rauða krossins í 4 mánuði. 

Margrét Rögn Hafsteinsdóttir, sem er deildarstjóri á taugalækningadeild Landspítalans, verður yfirhjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsi þýska og finnska Rauða krossins í Carrefour í úthverfi Port-au-Prince. Þetta er í fyrsta sinn sem Margrét Rögn starfar fyrir Rauða krossinn, en hún hefur áður starfað fyrir Sameinuðu þjóðirnar í New York. Hún heldur út á morgun 15. maí.

Þar með verða sex starfandi íslenskir hjálparstarfsmenn á Haíti, en alls hafa þá 18 íslenskir sendifulltrúar unnið að neyðarviðbrögðum Alþjóða Rauða krossins eftir jarðskjálftann mikla í janúar.

Fyrir eru fimm hjálparstarfsmenn Rauða kross Íslands á Haítí: Ruth Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur og Bjarni Árnason læknir sem einnig starfa við sjúkrahús þýska og finnska Rauða krossins, Valgerður Grímsdóttir hjúkrunarfræðingur sem starfar á tjaldsjúkrahúsi norska Rauða krossins í Petit Goave; Birna Halldórsdóttir sem vinnur að dreifingu hjálpargagna Alþjóða Rauða krossins; og Kristjón Þorkelsson sem er margreyndur sendifulltrúi Rauða kross Íslands á sviði vatnshreinsimála.