Skelfilegt ástand á Haítí

Fréttablaðið

15. jún. 2010

Bjarni Árnason bráðalæknir er nýkominn frá Haítí þar sem hann dvaldi í um mánuð. Hann segir Haítíbúa oft fara of seint til læknis og að þar séu margir veikir. Nú sé heilbrigði fólks verra en áður. Greinin birtist í Fréttablaðinu 15.06.2010.

„Ástandið er skelfilegt. Bráðafasinn sem slíkur eftir jarðskjálftann er þó búinn. Nú sjáum við óbeinar afleiðingar af jarðskjálftanum, það er að segja að innviðir samfélagsins eru brotnir," segir Bjarni Árnason bráðalæknir sem dvaldi á Haítí í maí við hjálparstörf á vegum Rauða krossins. „Heilbrigði fólks verður enn þá verra heldur en það var áður, bæði út af mjög lélegum hreinlætisaðstæðum og skorti á aðgengi að heilbrigðisþjónustu."

Bjarni var við hjálparstörf í úthverfi Port-au-Prince, höfuðborgar Haítí, á sjúkrahúsi þýska og finnska Rauða krossins en hann segir að margir íbúanna hafi ekki komist undir læknishendur frá því að jarðskjálftinn gekk yfir. „Það er gríðarlega mikið af veiku fólki þarna. Fólk fer ekki til lækna almennt eða fer miklu seinna heldur en það ætti að gera," útskýrir Bjarni sem segir það oft vera orðið of seint. „Víða er pottur brotinn í almennu heilbrigði hjá fólki."

Bjarni segir jarðskjálftann hafa komið verst niður á börnunum og barnshafandi konum. „Þær hafa í raun og veru ekki í nein hús að venda og fá enga heilbrigðisþjónustu. Þetta kemur samt niður á öllum," upplýsir Bjarni en Haítí er á meðal fátækustu ríkja heims. „Konur sem eru ófrískar fara ekki í mæðraeftirlit og meðgöngueftirfylgd. Það eru engar rannsóknir gerðar á börnum eftir fæðingu þannig að það er mikið af veikum barnshafandi konum og svo er mikið af veikum börnum sem eru bara úti í samfélaginu."

Inntur eftir þeim helstu kvillum sem hrjá Haítíbúa nú eftir jarðskjálftann segir hann: „Það er náttúrulega mikið um sýkingar, öndunarfærasýkingar, heilahimnubólgur og alls konar niðurgangspestir og iðrakveisur. Eins er mikið um bruna og meðgöngufylgikvilla. Líka er mikið um æxli og krabbameinssjúkdóma sem í raun og veru enginn hefur fengið neina meðferð við nokkurn tíma. Svo tókum við líka á móti mörgum sem orðið höfðu fyrir ofbeldi og voru með sveðjusár og skotsár."

martaf@frettabladid.is