Tveir hjálparstarfsmenn Rauða krossins til viðbótar halda til Haítí

30. júl. 2010

Erla Svava Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur og Jón Magnús Kristinsson bráðalæknir halda til Haítí næstkomandi mánudag, 2. ágúst þar sem þau munu starfa næstu vikur á sjúkrahúsi finnska og þýska Rauða krossins í Carrefour, úthverfi Port-au-Prince. Þau eru 26. og 27. í röðinni af sendifulltrúum Rauða kross Íslands sem haldið hafa til starfa á Haítí síðan jarðskjálftinn mikli reið þar yfir fyrir rúmu hálfu ári.

Fyrir eru sex hjálparstarfsmenn á vegum Rauða kross Íslands á jarðskjálftasvæðinu. Þrír halda til Íslands í lok næstu viku, en Oddfríður Ragnheiður Þórisdóttir og Kristjana Þorláksdóttir hjúkrunarfræðingar halda áfram störfum á finnsk/þýska sjúkrahúsinu út ágúst. 

Í Port-au-Prince er einnig Kristjón Þorkelsson, margreyndur sendifulltrúi Rauða kross Íslands á sviði vatnsöflunar- og hreinlætismála. Hann hefur starfað fyrir Alþjóða Rauða krossinn á Haítí síðan í febrúar og verður áfram við störf fram á haust.

Þetta er fyrsta starfsferð Jóns Magnúsar fyrir Rauða krossinn, en önnur ferð Erlu Svövu til Haítí þar sem hún starfaði við sama sjúkrahús í febrúar. Hún hefur einnig starfað fyrir Alþjóða Rauða krossinn í Pakistan fyrr á þessu ári.

Á sjúkrahúsi finnska og þýska Rauða krossins hefur verið veitt ein öflugasta heilbrigðisþjónusta sem er í boði á Haítí síðan skjálftinn reið yfir. Að meðaltali njóta um 1.700 sjúklingar á viku umönnunar þar, auk þess sem þúsundir manna hafa fengið aðstoð hjá færanlegu sjúkrateymi sem gert er út frá sjúkrahúsinu.