Hjálpargögn til hamfarasvæða á sem skemmstum tíma

31. ágú. 2010

Baldur Steinn Helgason er sendifulltrúi Rauða kross Íslands á skrifstofu Alþjóða Rauða krossins í Dúbæ í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Baldur Steinn gegnir mikilvægu hlutverki í neyðaraðgerðum Rauða krossins og Rauða hálfmánans þegar náttúruhamfarir geisa, og hefur mikið mætt á honum og samstarfsmönnum hans undanfarið vegna flóðanna miklu í Pakistan. Hann sendi þennan pistil til að veita innsýn í hin mismunandi störf sendifulltrúa Rauða krossins á vettvangi:

Dúbæ eða Kanaríeyjar er líklega ekki það fyrsta sem fólki dettur í hug í sambandi við hjálparstarf Rauða krossins. Í Dúbæ er ein af þremur birgðastjórnunarstöðvum Alþjóðasambands Rauða krossins - IFRC (hinar tvær eru staðsettar í Kúala Lúmpúr og Panama). 

Á skrifstofunni í Dúbæ ber ég meðal annars ábyrgð á geymslu og flutningi hjálpargagna úr vöruskemmum okkar í Dúbæ og á Kanaríeyjum. Staðsetning vöruskemmanna spilar mikilvægt hlutverk í viðbragðsáætlun Alþjóðasambandsins. Markmiðið er að geta komið sem mestu magni hjálpargagna á hamfarsvæði á sem skemmstum tíma. Það sem vegur þyngst í viðbragðsflýti er aðgangur að tryggum flutningaleiðum. Frá vöruskemmu okkar í Dúbæ er aðgangur að tveimur gríðarstórum alþjóðlegum höfnum og fjórir alþjóðlegir flugvellir eru í innan við klukkustundar fjarlægð frá vöruskemmunni. Þessi staðsetning tryggir góðan aðgang að ódýrum og tryggum flutningaleiðum. 

Í vöruskemmu Alþjóðasambandsins í Dúbæ kennir ýmissa grasa. Þar eru geymd tjöld, ullarteppi, plastbrúsar, segldúkar, moskítónet, eldunarpakkar, hreinlætispakkar, verkfærasett og fleira. Saman eru þessir hlutir oft kallaðir fjölskyldupakkar, sem miða að því að veita fjölskyldum sem lenda á vergangi skjól og aðstoða þær við að koma fótum undir sig á ný. Á innan við 48 klukkustundum eftir að neyðarkall berst þurfum við að geta sent hjálpargögn (eða fjölskyldupakka) fyrir 5.000 fjölskyldur hvert sem er í Afríku, Miðausturlöndum eða Evrópu. Næstu tvær vikur eftir að neyðarkall berst þurfum við síðan að geta sent birgðir fyrir 20.000 fjölskyldur til viðbótar.

Nú, um tveimur vikum eftir að neyðaraðgerð Alþjóðasambands Rauða krossins og pakistanska Rauða hálfmánans við flóðunum í Pakistan var hrundið af stað, höfum við þegar sent alls fimmtán 40 feta gáma af hjálpargögnum til Pakistans frá Dúbæ (fyrir um 10 þúsund fjölskyldur) og fleiri sendingar eru í farvatninu. Þessar sendingar hafa verið fjármagnaðar af breska, bandaríska, kanadíska, franska og hongkongska Rauða krossinum. Hluti af starfi okkar er að bjóða landsfélögum upp á hagkvæman kost í nýtingu söfnunarfés í stað þess að hvert og eitt landsfélag sendi neyðargögn úr sínum eigin vöruskemmum. Siglingin héðan til Pakistans er einungis 2 dagar og neyðarteymi í hafnarborginni Karachi sjá um að flytja og dreifa hjálpargögnunum til nauðstaddra á flóðasvæðunum.

Óralangt frá Dúbæ, í Las Palmas á Kanaríeyjum, er önnur miðlæg vöruskemma þar sem hjálpargögn eru í geymslu. Húsnæðið stendur á hafnarsvæðinu og er í eigu spænska Rauða krossins. Þaðan er mjög hagkvæmt að senda neyðarbirgðir til landa í Vestur- og Mið-Afríku. Í Las Palmas er nú verið að undirbúa sendingu þriggja gáma til Vesturafríkuríkjanna Benín og Senegal. Í löndunum tveimur eru litlar svæðisbundnar vöruskemmur en sendingin er liður í undirbúningi fyrir flóðatímabilið í Vestur Afríku.

Sendifulltrúar Rauða kross Íslands starfa á mjög mismunandi vettvangi en flest miða störfin beint eða óbeint að sama marki, að aðstoða við björgun mannslífa og eflingu endurreisnar fólks eftir hamfarir og kreppur. Þessi stutti pistill er örlítil innsýn í hlutverk mitt sem birgðastjóri Alþjóðasambands Rauða krossins í Dúbæ í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.