Kóleran er tifandi tímasprengja

12. nóv. 2010

Þrír íslenskir sendifulltrúar Rauða krossins á Haítí taka nú þátt í að berjast gegn kólerufaraldri sem stöðugt verður skæðari. Sjúkdómurinn hefur náð inn til Port-au-Prince og er eins og tifandi tímasprengja í flóttamannabúðum þar sem hundruð þúsunda manna hafast við.

Þrátt fyrir mikla áherslu á vatns- og hreinlætisaðstöðu í höfuðborginni – þar sem Rauði krossinn útvegar um 40 prósent af öllu drykkjarvatni – eru aðstæður samt víða hrikalegar. Fellibylurinn Tomas gerði illt verra.

„Það eru komin næstum 10 þúsund tilfelli og 643 dauðsföll skráð vegna kóleru,“ segir Birna Halldórsdóttir rekstrarstjóri tjaldsjúkrahúss Rauða krossins í Carrefour. „En mörg tilfelli hafa ekki verið skráð og sumir segja að það sé hægt að tvöfalda þessar tölur.“

Kristjana Þorláksdóttir hjúkrunarfræðingur hefur verið á kólerusvæðum þar sem Rauði krossinn hefur komið upp sérstöku sjúkraskýli fyrir kóleru. Hún segir að nú séu að koma fleiri tilfelli inn á spítalann í Carrefour. Þar er einnig Ragnheiður Þórisdóttir yfirhjúkrunarfræðingur, sem fór upphaflega til Haítí í lok maí.

Kólera er farsótt sem getur dregið fólk til dauða á nokkrum klukkustundum. Sjúkdómurinn veldur miklum niðurgangi sem leiðir til þess að líkaminn ofþornar. Hægt er að vinn bug á veikinni með tiltölulega auðveldum hætti ef sjúkdómurinn kemst í meðferð fljótt.

Auk þess að sinna þeim sem veikjast þá stendur Rauði krossinn á Haítí fyrir umfangsmiklum aðgerðum til að fyrirbyggja sýkingu. Þær beinast einkum að því að fá fólk til að gæta ítrasta hreinlætis.

Alls hefur Rauði kross Íslands sent 27 sendifulltrúa til Haítí, mest lækna og hjúkrunarfræðinga, en einnig sérhæft starfsfólk til að starfa við vatns- og hreinlætismál, dreifingu hjálpargagna og ástandsmat.