Lilja á flóðasvæðum í Pakistan: „Fólkið er svangt, órólegt og skítugt“

23. nóv. 2010

Lilja Óskarsdóttir hjúkrunarfræðingur tók á móti 154 sjúklingum á færanlegri sjúkrastöð Rauða krossins á flóðasvæðum í Pakistan á mánudag. Flóðin færðu fimmtung af Pakistan í kaf og ollu skaða hjá 20 milljónum manna.

„Ég fór núna í tjaldbúðir fyrir fólk sem hefur orðið að flýja heimili sín,“ segir Lilja. „Það var verið að koma upp enn fleiri tjöldum fyrir fólk sem hingað til hefur fengið að gista í skólum. En nú þarf að rýma skólana sem eiga að taka til starfa á ný.“

Lilja starfar á sjúkrastöð sem sendir fjögur teymi lækna og hjúkrunarfræðinga út á flóðasvæðin. Þrjú teymi fara daglega út á flóðasvæði og snúa til baka um kvöldið en það fjórða fer lengri leið og þar gista hjálparstarfsmenn þrjá daga í senn. Aðstaðan er ekki beysin: Moskítónetstjald á húsþaki.

Lilja og félagar hennar frá Noregi, Kanada, Ástralíu og Hong Kong gera að sárum og hjúkra fólki sem sumt hefur búið við ömurlegar aðstæður síðan flóðin fóru yfir fyrir rúmum þremur mánuðum.  Flestir hafa ekki bara misst allt sitt – heimili, húsbúnað og jafnvel ættingja – heldur sjá þeir fram á að fá enga uppskeru í ár.

Sums staðar er ræktarland enn undir vatni. Á einstaka stað hefur fólk safnast saman á hólum og hæðum sem nú eru sem eyjar í úthafi. Sjá má fólk vaða elginn upp að mitti.

„Þarna mátti sjá fólk sem var ekki búið að fá tjöld,“ segir Lilja. „Ein fjölskylda var bara með eitt rúm og allar sínar eigur undir því. Sennilega var mánuður síðan síðast var úthlutað mat í búðunum og fólk var svangt, órólegt og skítugt.“

Margir þeirra sem koma á sjúkrastöðina eru með sjúkdómseinkenni sem benda til malaríu. Aðrir eru með niðurgangspestir og húðsjúkdóma. Ofþornun hrjáir mörg börnin.

Sjúkrastöðin er í Sindh héraði á svæði þar sem mikið er um landbúnaðarverkamenn. Þeir hafa ekki fengið laun í marga mánuði. Hvarvetna er komið fram á fólk sem hefur ekki fengið almennilegan mat svo vikum skiptir.

Samt er hjálparstarfið umfangsmikið og virkt. Þarfirnar eru einfaldlega meiri.