„Starfið í Pakistan var áhugavert og árangursríkt"

17. des. 2010

Lilja Óskarsdóttir hjúkrunarfræðingur kom heim frá Pakistan 15. desember en hún fór til Larkana í Sindh héraði í byrjun nóvember. Verkefni Lilju í Larkana var að taka þátt í hjálparstarfi fjölþjóðlegs teymis undir stjórn norska Rauða krossins sem hófst í lok ágúst í kjölfar flóðanna í Indus. 

„Við fórum sex daga vikunnar með færanlega sjúkrastöð í héruðin í kring, til Shikarpur, Shadad Kot og Larkana. Þar störfuðu tveir til þrír læknar, tveir hjúkrunarfræðingar og tíu pakistanskir starfsmenn frá Rauða hálfmánanum við móttöku, greiningu og meðhöndlun sjúkra á svæðinu. Hlutverk mitt í teyminu var að stjórna uppsetningu stöðvarinnar og skipuleggja starfið á hverjum stað, sinna almennum hjúkrunarstörfum, t.d. sáraskiptingum og lyfjagjöfum, velja úr veikustu sjúklingana, sem fengu læknisviðtal, og meðhöndla einfaldari vandamál við innganginn,“ segir Lilja eftir heimkomuna.

Aðrir í teyminu störfuðu í Garhi Khairo, lítilli borg í tveggja og hálfs tíma akstursfjarlægð frá Larkana. Þar setti norski Rauði krossinn upp sjúkrastöð því sjúkrahús borgarinnar eyðilagðist í flóðunum. Sjúkrahúslóðin var enn þakin vatni um miðjan desember. Aðsetur fyrir sjúkrastöðina var á skólalóð við nýlega skólabyggingu sem ekki var í notkun. Sett var upp göngudeild í tjöldum á skólalóðinni og þar vann starfsfólk gamla sjúkrahússins í Garhi Khairo.

„Hjúkrunarfræðingarnir frá teyminu í Larkana skiptust á að fara og dvelja þrjá daga í senn í Garhi Khairo til að hafa umsjón með starfinu og lyfjabúrinu," segir Lilja. „Það kom svo í minn hlut að vera þar síðustu þrjá dagana og setja umsjónarhlutverkið í hendur pakistansks hjúkrunarfræðings frá pakistanska Rauða hálfmánanum. Frá 14. desember er starfsemi bæði færanlegu sjúkrastöðvarinnar og sjúkrastöðvarinnar í Garhi Khairo í höndum heimamanna með stuðningi frá norska Rauða krossinum.“

„Þessar fimm vikur í Pakistan voru mjög góðar, mér fannst starfið áhugavert og árangursríkt. Samstarf við meðlimi í alþjóðlega teyminu og við pakistanskt samstarfsfólk var gott, allt skipulag og aðstaða til fyrirmyndar. Hefði verið ástæða til að framlengja hefði ég gert það án þess að hika,“ sagði Lilja Óskarsdóttir að lokum.