Hjálp þar sem neyðin var stærst

Morgunblaðið

3. jan. 2011

„Það er mjög lærdómsríkt að taka þátt í svona verkefnum og sömuleiðis gefandi. Ég get hagað minni vinnu þannig að stundum er borð fyrir báru og get þá farið fyrirvaralítið af stað þegar kallið kemur. Sú var einmitt raunin þegar óskað var eftir hjúkrunarfræðingi til hjálparstarfa í Pakistan nú í haust,“ segir Lilja Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur í Vestmannaeyjum. Greinin birtist í Morgunblaðinu 31.12.2010

Kólera í vatninu

Flóðin í Pakistan í ágúst eru þau verstu sem þar hafa orðið í manna minnum. Flóðin ollu búsifjum á um 70% landsins og nú undir árslok var talið að um ein milljón manna væri heimilislaus af völdum flóðanna og mun hafast við í tjöldum nú þegar vetur gengur í garð.
Talið hefur verið að um 2,5 milljónir manna hafi orðið fyrir áföllum af völdum flóðanna og að 1.500 hafi farist. Hvað sjúkdómahættu varðar hafa yfirvöld og hjálparstofnanir verið vel á verði, en óttast hefur verið að kólera geti breiðst út með menguðu vatni þar sem mannfjöldi hefur safnast saman til að leita sér skjóls. Hafa aðgerðir ekki síst tekið mið af þeim veruleika.

Lilja Óskarsdóttir hjúkrunarfræðingur hélt til starfa í Pakistan og starfaði með alþjóðlegum hóp Rauða krossins sem aðstoðaði fórnarlömb flóðanna í Sindh-héraði í suðurhluta landsins. Einnig fór Jóhannes Sigfússon, lögregluvarðstjóri á Akureyri, utan til starfa sem öryggisfulltrúi og Hrafnhildur Sverrisdóttir gegndi starfi samskiptafulltrúa Alþjóða Rauða krossins í landinu.

Þrátt fyrir hörmungar í Pakistan má jafnan sjá tilhlökkun og blik í augum.
 

„Ég fór utan með hóp frá norska Rauða krossinum. Upphaflega stóð til að ég yrði á vaktinni í tjaldsjúkrahúsi en svo reyndist meiri þörf á því að við héldum úti færanlegri sjúkrastöð sem við fórum með til þeirra héraða þar sem neyðin var stærst, svo sem til héraðanna Shikarpur, Shadad Kot og Larkana. Þessari sjúkrastöð tilheyrðu tveir til þrír læknar, tveir hjúkrunarfræðingar og tíu pakistanskir starfsmenn frá Rauða hálfmánanum við móttöku, greiningu og meðhöndlun sjúkra á svæðinu. Hlutverk mitt þarna var að stjórna uppsetningu stöðvarinnar og skipuleggja starfið á hverjum stað, sinna almennum hjúkrunarstörfum, til dæmis sáraskiptingum og lyfjagjöfum, velja úr veikustu sjúklingana, sem fengu læknisviðtal, og meðhöndla einfaldari vandamál,“ segir Lilja sem kom heim 15. desember eftir fimm vikna starf í Pakistan sem henni þótti í alla staði mjög árangursríkt.

Í hjálparstarfi á Haítí
En Lilja fór víðar á árinu sem hjúkrunarfræðingur. Hún hefur lengi verið á útkallslista Rauða krossins og í kjölfar hamfaranna á Haítí snemma á árinu fóru hjálparliðar víða að úr veröldinni til starfa þar. Vakti framganga íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar þar verðskuldaða athygli og á vegum Rauða kross Íslands voru á staðnum læknir, hjúkrunarfræðingar og sendifulltrúar.

„Hjálparstarfið á Haítí var mikil lífreynsla því þar hrundi heilt samfélag og innviðir þess til grunna. Áður en til þess kom var ég á leiðinni annað til hjálparstarfa þegar strandaði á einhverjum formsatriðum svo niðurstaðan varð Haítí þar sem ég starfaði við tjaldsjúkrahús þýska og finnska Rauða krossins í fátækrahverfinu Carrefour í Port-au-Prince og sá þar vel þá gríðarlegu neyð sem skapaðist í kjölfar jarðskjálftanna miklu,“ segir Lilja sem unnið hefur fyrir Rauða krossinn og önnur hjálparsamtök í Súdan, Bosníu og Eþíópíu - og hefur nú bætt fánum Pakistans og Haíti á kort sitt.