Líf og starf á flóðasvæði í Pakistan

Jóhannes Sigfússon, sendifulltrúa í Pakistan

24. mar. 2011

Jóhannes Sigfússon lögregluvarðstjóri vinnur í Pakistan sem öryggisfulltrúi Alþjóða Rauða krossins. Hann skrifar um störf sín á vettvangi:

Ég fór til starfa sem sendifulltrúi Rauða krossi Íslands til Pakistans um miðjan nóvember 2010. Landið er í miklum sárum vegna flóða sem urðu í fyrrasumar og jarðskjálfta á árinu 2005. Milljónir Pakistana urðu fyrir beinum og óbeinum búsifjum vegna þessara náttúruhamfara, en íbúar landsins eru um 200 milljónir.

Verkefni hjálparsamtaka eru því ærin í Pakistan og eru fjölmargir starfsmenn Rauða krossins og Rauða hálfmánans við hjálparstörf. Pakistanski Rauði hálfmáninn hefur eflst verulega á síðustu árum og vinnur mikið og gott starf. Að auki sinna fjölmörg minni innlend og alþjóðleg hjálparsamtök verkefnum á svæðinu.

Með tveimur aðstoðarmönnum í farvegi flóðanna í Maydian. Sjá má eyðilegginguna í bakgrunni.
Í flóttamannabúðum í Charsadda þar sem ég gerði öryggisúttekt fyrir komu fjölmiðlateymis á staðinn.
Þessi mynd gefur hugmynd um hvílíkar náttúruhamfarir flóðin síðastliðið sumar voru.
Snætt með innfæddum í borginn Mingora.

Rauði kross Íslands hefur ekki látið sitt eftir liggja og styrkir mannúðarstarfið með beinum fjárframlögum en ekki hvað síst með því að leggja til starfsfólk með sérfræðiþekkingu. Heilbrigðisstarfsfólk hefur að mestu fyllt þann flokk. Sjálfur er ég lögreglumaður með áratuga reynslu úr því starfi og reynslu af starfi með alþjóðlegum lögreglusveitum Sameinuðu þjóðanna í Bosníu og Líberíu.

Ég sótti sendifulltrúanámskeið Rauða krossins í mars á síðasta ári og gaf þar með kost á mér til starfa fyrir félagið erlendis. Kallið kom í nóvember þegar mér var gefinn kostur á að vinna sem öryggisfulltrúi fyrir Alþjóða Rauða krossinn í Pakistan. Hingað kom ég síðan um miðjan nóvember með sex mánaða starfssamning.

Ég fór með frekar skömmum fyrirvara og verð að viðurkenna að það var nokkur ögrun í byrjun að komast inn í hlutina. Manni er sannarlega kippt út úr þægindahringnum heima og er svo allt í einu á mjög framandi stað, enda ekki við því að búast að vinnu- og lífsskilyrði á hamfarasvæði sé upp á marga fiska. Síðan þurfti ég náttúrulega að tileinka mér ótalmargar nýjungar. Fyrst af öllu var jú að kynnast öllu fólkinu og tengja saman andlit og framandi nöfn.

Mikilvægt er að setja sig inn í menninguna, læra nýja siði og venjast matnum, læra um landið – veðurfarið, landafræðina og staðarheitin, pólitíkina, trúarbrögðin og gildin sem ríkja í samskiptum kynjanna. Síðan var ég að taka mín fyrstu skref í alþjóðastarfi með Rauða krossinum og kynnast af eigin raun því vinnuumhverfi. Það reyndi því talsvert á aðlögunarhæfnina fyrstu vikurnar og mánuðina.

Alþjóða Rauði krossinn er með þrjá öryggisfulltrúa á sínum snærum í Pakistan og hefur yfirmaðurinn aðsetur í Islamabad. Hinir tveir eru á vettvangi, annar í suðurhlutanum, með aðsetur í Karachi og ég í norðurhlutanum með aðsetur í borginni Mansehra. Verkefni okkar eru afar fjölbreytt en felast í sem stystu máli í því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja öryggi starfsmanna Rauða krossins í landinu.

Við tökum á móti nýjum starfsmönnum og veitum þeim ítarlega kynningu á öryggismálum. Þá erum við með neyðaráætlanir, m.a. um neyðarbrottflutning starfsmanna og viðbrögð við bráðaveikindum og slysum. Stór hluti starfsins gengur út á að koma  á góðu sambandi við alla þá sem geta gefið upplýsingar um öryggismál, s.s. lögreglu, leyniþjónustu, her, starfsmenn Sameinuðu þjóðanna og aðrar hjálparstofnanir. Með slíku tengslaneti er svo hægt að nota upplýsingar til að stýra ferðum hjálparstarfsmanna Rauða krossins og beina þeim frá hættulegum stöðum og uppákomum.

Við höfum strangt eftirlit með ferðum Rauða kross fólks. Hver sem ætlar að ferðast verður að leggja fram ferðabeiðni með leiðarlýsingu og tímasetningum. Allir bílar Rauða krossins eru með fjarskiptabúnað og síðan erum við með nokkur fjarskiptaherbergi þar sem starfsmennirnir eru í stöðugu sambandi við þá sem eru á ferðinni. Einnig gerum öryggisúttektir á húsum sem okkar fólk ætlar að búa í, á vöruskemmum sem við notum o.s.frv. Ef einhver okkar fólks lendir í umferðaróhappi eða verður fyrir barðinu á afbrotamönnum komum við að því og leiðbeinum um viðbrögð og afgreiðslu málsins.

Þetta er brot af því sem er á verkefnalistanum en á þeim stutta tíma sem ég hef verið í Pakistan, hafa fallið til ærin verkefni. Ekki er lengur unnið eftir neyðarstigi. Verkefni Rauða krossins eru því að breytast frá því að útvega fólki heilbrigðisþjónustu, mat, fatnað, hreinlætisvörur og neyðarskýli yfir í það að útvega hráefni til sjálfsbjargar svo sem útsæði og áburð til matvælaframleiðslu, varanlegan aðgang að neysluvatni og stuðla að uppbyggingu skóla og heilbrigðiskerfis.

Hjálparstarfinu er fjarri lokið og margir eiga allt undir því að alþjóðasamfélagið hjálpi þeim að fullnægja grunnþörfum. Það eru því enn fjöldi starfsmanna Rauða krossins og Rauða hálfmánans á ferð og flugi um landið við sín störf og er í mörg horn að líta fyrir öryggisfulltrúana. Ástand öryggismála er almennt nokkuð viðkvæmt í landinu og ýmsar uppákomur sem við þurfum að fást við frá degi til dags.

Þessir fyrstu mánuðir í starfi fyrir Rauða kross Íslands í Pakistan hafa því sannarlega verið allt í senn erfiðir, lærdómsríkir og spennandi. Ég er þakklátur Rauða krossinum fyrir að gefa mér kost á að taka þátt í þessu verkefni og sný heim í vor með troðinn reynslusarp.