Þórunn Sveinbjarnardóttir leiðir alþjóðlegt teymi Rauða krossins í Kákasus

16. sep. 2009

Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður leiðir á næstu dögum alþjóðlegt teymi Rauða krossins sem kannar viðbúnað vegna hamfara í Kákasuslöndunum þremur, Georgíu, Armeníu og Aserbaídsjan. Þórunn verður fulltrúi Rauða kross Íslands í teyminu.

Jarðskjálftar eru algengir í þessum löndum, auk þess sem flóð, aurskriður og ýmsar veðurtengdar hamfarir eru þar tíðar. Tvær og hálf milljón manna búa á skjálftasvæðum í Kákasusfjöllum. Að minnsta kosti 25 þúsund manns létu lífið í jarðskjálfta í Armeníu árið 1988. Í þessum mánuði eyðilagði jarðskjálfti í Georgíu 1.400 hús með þeim afleiðingum að nú hafast fleiri en þúsund fjölskyldur við í tjöldum.

Hlutverk Þórunnar og sérfræðiteymis hennar er að kanna hvernig Rauði krossinn í löndunum þremur er í stakk búinn til þess að bregðast við hamförum og hvernig megi styrkja samfélög á staðnum þannig að þau séu búin undir skyndilega neyð.

Teymið mun síðan vinna skýrslu sem notuð verður til grundvallar umsókn Alþjóða Rauða krossins til Mannúðarskrifstofu Evrópusambandsins um styrk til uppbyggingar á forvörnum vegna hamfara í löndunum þremur. Unnið er að því að gera íbúa á hamfarasvæðum færa um að meta sjálfir hættuástand og vinna að forvörnum til að koma í veg fyrir að stórfellt tjón verði á fólki og mannvirkjum.

Þórunn hefur unnið ýmis trúnaðarverkefni fyrir Rauða kross Íslands, svo sem við móttöku flóttamanna frá Víetnam 1991-1992 og gerð skýrslu um móttöku og málefni flóttamanna hér á landi árið 1996. Þórunn var sendifulltrúi í flóttamannabúðum Alþjóða Rauða krossins í Tansaníu árið 1995 og upplýsingafulltrúi á skrifstofu Alþjóða Rauða krossins í Aserbaídsjan 1996-1997.