Ostaveisla í Pakistan

Morgunblaðið

7. sep. 2011

Hrafnhildur Sverrisdóttir er sendifulltrúi Rauða krossins í Pakistan. Hún skrifaði dagbók fyrir Morgunblaðið sem birtist í blaðinu þann 21.08.2011.

07:00 - Ég ýti á snús-takkann. Ég ranka við mér rúmlega hálftíma seinna þegar Louisa samstarfskona mín og meðleigjandi hringir og segir að hún hafi sofið yfir sig. Ég fatta þá að ég hef líka sofið yfir mig. Ég rýk framúr og í sturtu. Nei...ekkert heitt vatn! Ég herði mig upp og skelli mér undir kalda bununa. Þegar ég kem niður í eldhús er David, hinn meðleigjandi minn, búinn að hella uppá kaffi. Ég næ því sturtu, morgunmat og að keyra í vinnuna á 40 mínútum. Algjört met í annars ringlaðri morguntraffík í Íslamabad.

08:15 - Mætt í vinnuna, á skrifstofu Alþjóðaráðs Rauða krossins. Í dag er fundur framundan sem skipulagður er af Sameinuðu þjóðunum þar sem farið verður yfir afleiðingar monsúnregns í Suður-Pakistan. Ég kveiki á tölvunni og skýst svo úr litla skrifstofuskúrnum mínum í bakgarðinum yfir í aðalbygginguna og næ mér í ilmandi Neskaffi. Ég skelli sykri og þurrmjólk í kaffið til að bæta bragðið. Þó Neskaffi venjist ótrúlega vel væri munur að fá gott Kaffitárskaffi á morgnana. Fram eftir morgni leggst ég í lestur á tölvupóstum um flóðasvæði í Suður-Pakistan og íbúa á átakasvæðum norður í landi.

11:00 - Hoppa á fund með yfirmanninum til að ræða flóðamál. Þó verkefni Alþjóðaráðsins snúi að því að aðstoða fórnarlömb vopnaðra átaka, verðum við að geta brugðist við náttúruhamförum ef þörf er á. Við förum yfir málin og rennum yfir dagskrá fundarins framundan. Ég skelli mér síðan yfir til Jósefs og Pálínu til að ræða verkefnaskýrslu sem send verður til yfirvalda. Jósef hefur umsjón með gervilimaverkefninu okkar, sem er sniðið að þeim sem misst hafa útlimi vegna jarðsprengna eða skotsára. Pálína hefur umsjón með heilsugæsluverkefnunum. Allt er á góðri leið. Að lokum býður Josef okkur í Raclette á laugardaginn, svissneskan ostarétt sem hann hefur komið með að heiman. Ég er fljót að taka boðinu enda er ég ostafrík.

15:00 - Eftir spjall með kollegunum yfir pakistönskum hádegismat bruna ég á fundinn sem fram fer á hóteli í borginni. Á leiðinni fer ég í gegnum öryggispósta lögreglunnar. Ég mæti á hótelið og öryggisverðir yfirfara bílinn og hleypa mér svo inn á bílastæðið. Eftir gang um gegnumlýsingartæki og langa ganga sest ég loks niður í fundarsalnum þar sem fólk frá hinum ýmsu hjálparstofnunum er að koma sér fyrir. Næstu tvo tímana er farið yfir fréttir af flóðasvæðum i suðrinu. Sem betur fer hefur verið hægt að aðstoða þá íbúa sem þurft hafa á hjálp að halda og samkvæmt veðurspá er ekki búist við meira monsúnregni á þessu svæði á næstu dögum. Allir eru samt í viðbragðsstöðu því oft hafa veðurspár klikkað. Ég fer aftur á skrifstofuna og hitti á yfirmanninn til að ræða efni fundarins og framgang mála.

18:30 - Á leiðinni heim er lítil umferð en nú er Ramadan, föstumánuður múslima og flestir komnir heim, rétt í þann mund að brjóta föstuna fyrir bænahald. Ég hugsa með mér að gott væri að gera nokkrar jógaæfingar fyrir kvöldmat. Ég er rétt kominn heim er kanadísk vinkona mín hringir og býður mér að koma með sér og vinum sínum út að borða. Þetta er svokölluð kveðjumáltíð því hún er að fara heim eftir 9 mánaða veru í Pakistan. Ég skelli mér undir kalda sturtuna, sem er frekar hressandi eftir heitan dag. Við eigum góða stund yfir matnum og hlæjum yfir sögum vinar okkar frá Kenýa um eiginkonur stjórnmálamanna þar í landi sem beitt höfðu ýmsum „heimilisráðum“ til að fá eiginmenn sína til að samþykkja lög sem þjóðinni var annt um að fá í gegn.

23:00 - Ég bursta tennur og skelli mér upp í rúm. Ég kíki á tölvupóstinn og sé að saumaklúbburinn minn, Krosssaumssystur, er að skipuleggja sumarbústaðaferð í Kjósina. Ah....ég læt mig dreyma um íslenska náttúru og grillkvöld í Kjósinni. Að lokum lognast ég út af yfir þrumum, eldingum og monsúnregni í Islamabad.