Minningarathöfn um Jón Karlsson, hjúkrunarfræðing og sendifulltrúa í Kjarnaskógi

22. apr. 2012

Í tilefni af því að í dag eru 20 ár liðin síðan Jón Karlsson sendifulltrúi var veginn við hjálparstörf fyrir utan Kabúl í Afganistan 22. apríl 1992,var haldin minningarathöfn um Jón í Kjarnaskógi við Akureyri kl. 11 fyrir hádegi. Athöfnin fór fram í Kjarnaskógi í stillu og fuglasöng að viðstöddum rúmlega fjörutíu manns.


Á meðal viðstaddra voru nánustu ættingjar Jóns, Anna Stefánsdóttir formaður Rauða kross Íslands, Jón Knutsen formaður Akureyrardeildar Rauða krossins og Robert Mardini aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðaráðs Rauða krossins.

Þá var Elín S. Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur viðstödd, en hún starfaði með Jóni í Kabúl þennan örlagaríka dag fyrir 20 árum.

Randver, bróðir Jóns Karlssonar gróðursetti álm til minningar um Jón, Anna Stefánsdóttir, formaður Rauða kross Íslands afhenti bekk til minningar um Jón og Þórir Guðmundsson flutti kveðjur frá sendifulltrúum og ekkju Jóns.

Þá flutti Robert Mardini, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðaráðs Rauða krossins, kveðjur frá Alþjóðaráðinu og sagði störf Jóns innblástur fyrir alla þá sem vilja bjarga mannslífum á átakasvæðum.

Gunnar Karlsson, elsti bróðir Jóns, hélt tölu fyrir hönd fjölskyldunnar og þakkaði Rauða krossinum fyrir að minnast starfa Jóns með þessum hætti. Sagði hann að Jón hefði verið mikill útivistarmaður, hefði unnað náttúrunni og haft unun af ferðalögum. Því væri hann sannfærður um að Jóni hefði hugnast staðsetning þessa minnismerkis í Kjarnaskógi. Þá hefði hann verið mikill íslenskumaður og haft yndi af málinu og bókmenntum. Fór Gunnar að lokum með brot úr Hávamálum:

Deyr fé, 

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama,

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.


Deyr fé, 

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama

Ég veit einn

að aldrei deyr:

dómur um dauðan hvern.

Jón Karlsson, hjúkrunarfræðingur var einn af reyndustu sendifulltrúum Rauða krossins þegar hann var veginn við hjúkrunarstörf fyrir utan Kabúl í Afganistan árið 1992. Jón var alinn upp á Dvergsstöðum í Hrafnagilshreppi í Eyjafirði, var stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og útskrifaðist frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1981. Að loknu námi starfaði Jón á Borgarspítalanum og síðar sem sendifulltrúi Rauða krossins í Tælandi, þrisvar sinnum í Afganistan, tvisvar í Pakistan og einu sinni í Súdan og Kenýa.

Ekkja Jóns Karlssonar heitir Jenny Hayward Karlsson. Rúmum tveimur mánuðum áður en Jón var veginn, gengu þau í hjónaband í heimalandi hennar, Englandi, þar sem þau ætluðu að stofna heimili.

 

Robert Mardini, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) sagði störf Jóns vera innblástur þeim sem vildu bjarga mannslífum.

Randver bróðir Jóns gróðursetti álm við bekkinn til minningar um bróður sinn.

Rauði krossinn afhenti bekk til minningar um Jón. Stendur hann í skjólgóðu rjóðri móti suðri.

Fjórir bræður Jóns ásamt fjölskyldum sínum. Bræðurnir standa fyrir aftan bekkinn í þessari röð: Ingvar, Randver, Hólmgeir og Gunnar. Fimmti bróðirinn heitir Hans og komst ekki.

Í bak bekksins eru skornar útlínur Rauða krossins og í honum miðjum er skjöldur til minningar um Jón.

Jón Karlsson, hjúkrunarfræðingur og sendifulltrúi Rauða krossins.Mánudagurinn 23. Apríl – Öryggi í hjálparstarfi

Af þessu sama tilefni boðar Rauði kross Íslands til morgunfundar um öryggi í hjálparstarfi, mánudaginn 23. apríl kl 08:30-09:45. Aðalræðumaður verður Robert Mardini, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC), sem kemur sérstaklega til landsins til að vera við minningarathöfn um Jón. Einnig ræðir Þórir Guðmundsson, sviðsstjóri hjálparstarfssviðs Rauða krossins, um öryggismál eins og þau snúa að Rauða krossi Íslands.

Fundurinn verður haldinn í húsnæði Rauða kross Íslands að Efstaleiti 9. Erindi verða flutt á ensku.