Breskur sendifulltrúi Alþjóðaráðs Rauða krossins myrtur í Pakistan

30. apr. 2012

Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) fordæmir morðið á Khalil Rasjed Dale, sextíu ára breskum sendifulltrúa sem starfaði að heilbrigðisverkefnum fyrir Rauða krossinn í Suðvestur-Pakistan. Khalil var rænt af óþekktum vopnuðum mönnum í borginni Quetta þar í landi 5. janúar þegar hann var á heimleið í bíl merktum Alþjóðaráði Rauða krossins. Pakistönskum lækni og bílstjóra sem voru með honum í bílnum var ekki gert mein. Lík Khalils fannst í vegarkanti fyrir utan borgina í gær.

„Alþjóðaráðið fordæmir eins harkalega og hægt er þetta villimannslega verk.“ segir Yves Daccord, framkvæmdastjóri Alþjóðaráðs Rauða krossins. „Allt samstarfsfólk hjá Alþjóðaráðinu og breska Rauða krossinum deilir sorg og reiði fjölskyldu og vina Khalils. Við erum harmi slegin yfir þessum fréttum. Khalil var reynslumikill starfsmaður Rauða krossins og naut mikils trausts enda hafði hann lagt mikið af mörkum í þágu mannúðar.

Khalil hafði starfað fyrir Aljóðaráðið og breska Rauða krossinn í fjölda ára, meðal annars í Sómalíu, Afganistan og Írak. Hann hafði starfað í Pakistan í nærri því eitt ár. Alþjóðaráð Rauða krossins hefur starfað í Pakistan síðan 1947 og veitt þar nauðsynlega heilbrigðisþjónustu auk þess að sinna endurhæfingu særðra.

Rauði kross Íslands sendi í dag samúðarkveðjur til Alþjóðaráðs Rauða krossins og breska Rauða krossins vegna fráfalls Khalils Rasjed Dale.