Löggiltur lagna- og burðarþolshönnuður í Darfur

Rúnar Jón Friðgeirsson

26. ágú. 2005

Rúnar er byggingatæknifræðingur og starfar sem sendifulltrúi í Darfur í Súdan. Hann sendi þrjár greinar sem hann skrifaði á tímabilinu júlí til ágúst.


Skrifað 31. júlí 2005

Núna er ég kominn með löggildingu í Vestur Darfur, alla vegana er ég búinn að gefa út lagnateikningar fyrir sjúkrahús í El Genina sem þjónar um hálfri milljón manna í höfuðstað Vestur Darfur. Þar með hlýt ég að vera með löggildingu hér. Einnig er ég búinn að gefa út teikningar bæði arkitekta- og burðarþolsteikningar af skrifstofubyggingu í Seleia.

Það eru endalaus vandamál með húsin núna á meðan á regntímanum stendur. Yfirleitt eru þetta lekavandamál en einnig er talsvert af grundunar vandamálum, vegna þess að undirstöður bygginga hér eru mjög veigalitlar. Þá skapast iðulega vandamál þar sem vatn kemst undir undirstöður og skolar sandinum sem húsin standa á í burtu. Ég er aðeins búinn að hífa staðalinn hér upp. Þau hús sem við byggjum framvegis verða byggð á steinfyllingu undir veggjum. Ofan á þessa steinafyllingu kemur járnbundinn steinsteyptur sökkulbiti 40 cm hár, 10 cm ofan jarðar og 30 cm neðan yfirborðs. Ofan á bitann kemur svo múrsteinsveggur og aftur járnbundinn biti í efri glugga- hurðalínu. Þar ofan á kemur aftur múrsteinsveggur. Síðast en ekki síst er ég búin að fá það í gegn að við erum hættir að nota leir eða sand á milli múrsteina eins og áður var gjarnan gert nú notum við múr. Það er nóg af sandi hér en reyndar minna af sementi og verðum við að flytja það inn. Nú eigum við einn 40 feta gám af sementi. Það dugar okkur út regntímann. Flutningar eru mjög erfiðir meðan á regntímanum stendur og nánast ómögulegir nema með flugi og ekki flytjum við sement með flugi.

Eitt sem stendur í byggingabókhaldinu finnst ókunnugum sérstaklega einkennilegt. Það er "Donkey water" Asnavatn. Þetta er kostnaðarliður sem húsbyggjendur hér þurfa að greiða fyrir. Það er einnig hér í borginni, þó að það séu einhverjar vatnleiðslur og stofnæðar, þá kemur sjaldan vatn úr þeim. Þess vegna er hér heil stétt manna yfirleitt ungir menn niður í ca. 10 ára sem flytja vatn á bakinu á ösnum í leðurpokum og selja það svo borgarbúum. Þetta er líflegur atvinnuvegur og er oft örtröð á götunum vegna þessara flutninga.

Og ef þú ert að byggja þá þarftu að kaupa vatn eins og aðrir. Vatnið er oftast sótt í næstu Wadi (á) eða í brunn yfirleitt ekki í vatnsdreifikerfi því að þá þarf að borga fyrir vatnið. Gæði vatnsins eru mjög oft slæm og sem betur fer er allt okkar drykkjarvatn síað því þegar ekki er vatn úr bæjarleiðslunum kaupum við líka asnavatn á vatnstankana okkar. Ég tók um daginn sýni úr krananum til að efnagreina í Khartum og ansi var það gruggugt svona einsog sæmilega hreint drullupollavatn á Íslandi.

Eitt af verkefnunum okkar er að bæta vatnskerfi borgarinnar og erum við núna að koma fyrir stofnæðarlokum og hæðartönkum hér í borginni. Þetta verkefni er unnið í samvinnu við borgaryfirvöld. Borgin hefur ekki peninga til að kaupa loka og það sem til þarf og erum við því að hjálpa þeim við að bæta vatnskerfið.

Núna eru daglegu verkamennirnir mínir komnir í verkfall. Þeir neita að vinna fyrir þau laun sem við bjóðum þeim 10 US dollara á dag. Ég þarf sem betur fer ekki að semja við þá um launin, það eru aðrir sem sjá um launamálinn hér. Persónulega finnst mér þetta vera lítil laun en verðlag er öðruvísi hér en í Evrópu. Ég get reynar alveg skilið þá því það kom ákvörðun um að borga minna en við höfum gert áður svo að nú eru þeir komnir í verkfall og neita að vinna.

Malis (skiptir ekki máli) þetta fer sérstaklega í taugarnar á sumum hér þegar þeir skemma eitthvað þá er svarið "malis"