Veðurtepptur

Rúnar Jón Friðgeirsson

25. ágú. 2005

Rúnar er byggingatæknifræðingur og starfar sem sendifulltrúi í Darfur í Súdan. Hann sendi þrjár greinar sem hann skrifaði á tímabilinu júlí til ágúst.


Skrifað 8. ágúst 2005

Veðurtepptur í Afríku hljómar ekki sérlega trúlegt, en svona er þetta nú samt yfir regntímann. Við vorum á leiðinni til Seleia 6. ágúst. Það rigndi alveg ferlega á leiðinni og vegaslóðarnir voru fullir af rigningavatni. Þetta voru litlar ár sem runnu eftir slóðunum og sameinuðust í stórar ár sem aftur breyttust í stór fljót í Wadi farvegunum. Þetta voru alvöru fljót svona eins og Markarfljót í vorleysingum.

Á leiðinni eru þrjár Wadi sem máli skipta. Við komum að þeirri fyrstu og í henni var vörubíll fastur og hæðin á vatninu var upp fyrir framljós svo að hæðin á vatninu hefur verið rúmur metri. Það var því ljóst að við færum ekki yfir og urðum að bíða og sjá hvort að ekki sjatnaði í Wadini.

Við settumst á bakkann og teygðum úr tánum, vatnið lækkaði furðu fljótt og eftir tvo tíma gátum við komist yfir. Á meðan við vorum að bíða kom fólk sem vildi komast yfir ýmist fótgangandi, ríðandi á ösnum eða gömlum bíldruslum. Nokkrir vildu ekki bíða og lögðu í að fara yfir, vatnið náði í geirvörtu þar sem það var dýpst.

Jæja eftir tveggja tíma bið á bakkanum komumst við heilu á höldu yfir og vorum þar með komnir til Sirba. Sirba er á milli tveggja Wadi. Þessi var sunnan við Sirba og norðan við er Sirbawadi en hún er öllu stærri. Þegar við komum að henni var ljóst að við færum ekki yfir fyrr en daginn eftir ef ekki rigndi um nóttina. Við eyddum því nóttinni í Sirba. Það rigndi enn og í Siba er ekki um marga staði að ræða til að gista. Þar er ein hjálparstofnun með aðstöðu, CRC kaþólsk hjálparstofnun frá Ameríku. Þeir eru ekki sérlega ríkir og aðstaðan er eftir því. Við fengum þó stráskýli og dýnugarma.

Eftir nætursvefn í stuttum dúrum var haldið að Wadinni og nú var hægt að komast yfir og gekk ferðin vel eftir þetta. Við förum í hverri viku út á land og eru þessar ferðir góð tilbreyting frá því að sitja á skrifstofunni. Þessa viku er ég í fimm daga ferð svo vikan verður fljót að líða.

Nú þegar regntíminn stendur sem hæst er allt grænt og í blóma. Sprettan er með besta móti og bændur eru glaðir og kátir. Maður hugsar stundum, þegar maður keyrir fram hjá fólkinu bogra á akrinum sínum sem er svona 100 – 200 m2, , verkfærin sem notuð eru eru stuttar nokkurskonar kínaskóflur sem þeir plægja með í höndunum, að hægt væri að gera kraftaverk hér með traktor og áveitukerfi. Milljónir rúmmetra af vatni fljóta yfir til Chad og verða að litlu gagni, jörðin virðist ekki halda miklum raka í sér heldur flæðir allt rigningavatn í næstu Wadi og þær renna allar í vestur til Chad og safnast þar í stóra á sem rennur til sjávar og verður því Chad búum ekki að miklu gagni. 

Hall'as (ekki fleira núna)