Tombólubörn og sjálfboðaliðar hylltir á degi sjálfboðaliðans 5. desember

4. des. 2012

Yngstu sjálfboðaliðar Rauða krossins, tombólubörnin, söfnuðu alls 600 þúsund krónum á árinu. Um 500 börn styrktu Rauða krossinn með hverskyns fjársöfnunum og fer þeim fjölgandi með hverju ári. Tombólubörnin skipa mikilvægan sess í starfi félagsins og sýna að ekkert aldurstakmark er á þörfinni að gefa af sér til þeirra sem búa við krappari kjör.

Framlög barna til Rauða krossins eru alltaf notuð til að aðstoða önnur börn víða um heim. Fénu að þessu sinni verður varið til aðstoðar við 150 skólabörn í Gambíu, en Birna Halldórsdóttir sendifulltrúi Rauða krossins þar hefur haft milligöngu um verkefnið.

„Hér í Gambíu eru fjölmörg börn sem ekki geta sótt skóla sökum fátæktar. Hafi fjölskylda þeirra ekki efni á að kaupa skólabúninga og skólabækur hætta þau einfaldlega námi,” segir Birna. „Með þessu fé frá tombólubörnum á Íslandi getur Rauði krossinn í Gambíu nú styrkt 150 börn til náms með því að kaupa handa þeim skólavörur og skólabúninga til skiptanna.”

Félagið vill nota tækifærið á alþjóðadegi sjálfboðaliðans þann 5. desember til að þakka öllum börnum á landinu sem styrktu Rauða krossinn með fjársöfnunum í ár. Þá er þeim sem lögðu Rauða krossinum lið í landssöfnuninni Göngum til góðs nú í október einnig færðar þakkir.

Rauði krossinn óskar jafnframt öllum sjálfboðaliðum sínum til hamingju með daginn. Árið 1985 tilnefndu Sameinuðu þjóðirnar 5. desember alþjóðlegan dag sjálfboðaliða. Tilgangurinn var að vekja athygli á framlagi sjálfboðaliða til samfélagsins. Rauði krossinn er fjöldahreyfing borin uppi af starfi sjálfboðaliða um allan heim sem hafa það að markmiði að aðstoða þar sem þörfin er mest.

Það sama á við um yfir 3500 sjálfboðaliða Rauða krossins á Íslandi sem daglega vinna að aukinni velferð fólks í íslensku samfélagi. Störf þeirra eru ekki metin til fjár í þjóðfélaginu og oftar en ekki verða eingöngu þeir sem njóta þjónustunnar hennar varir.