Andlát: Kristjón Þorkelsson sendifulltrúi Rauða krossins

23. jan. 2013

Kristjón Þorkelsson, sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi, varð bráðkvaddur í Síerra Leóne sunnudaginn 20. janúar. Kristjón hafði starfað að neyðaraðgerðum fyrir Rauða krossinn vegna kólerufaraldurs í Síerra Leóne síðan í ágúst.

Kristjón var fæddur 20. desember árið 1955 og var til heimilis að Þórufelli 8, Reykjavík. Kristjón var pípulagningarmeistari og starfaði sem sérfræðingur í vatns- og hreinlætismálum fyrir Rauða krossinn á Íslandi og Alþjóða Rauða krossinn. Hann var einn reyndasti sendifulltrúi félagsins.

Kristjón hóf störf með Rauða krossinum árið 1991 þegar hann var ráðinn við vatnsveitugerð í Írak. Ári seinna hélt hann aftur til Íraks sem sérfræðingur í vatns- og hreinlætismálum við byggingu sjúkrahúsa. Árið 2003 var hann svo aftur fenginn til Íraks til að vinna að enduruppbyggingu sjúkrahúsa þar vegna sérþekkingar sinnar.

Frá 2004-2006 vann Kristjón að vatnsveituverkefnum í Darfur í Súdan og í Eþíópíu. Árið 2009 fór hann til Sýrlands þar sem hann starfaði með alþjóðlegum neyðarhópi sem sérfræðingur í vatns- og hreinlætismálum vegna kólerufaraldurs. Kristjón var fenginn til að stýra vatns- og hreinlætisverkefnum fyrir Alþjóða Rauða krossinn eftir jarðskjálftann mikla á Haítí árið 2010, og nýttist þekking hans sérlega vel þegar kólera kom þar upp nokkrum mánuðum síðar.

Kristjón var við störf fyrir Rauða krossinn í Síerra Leóne þegar hann lést. Þar vann hann að fyrirbyggjandi aðgerðum ásamt því að greina hver voru upptök kólerufaraldurs sem blossaði upp í landinu í ágúst í fyrra.

Kristjón starfaði einnig á vegum friðargæslu utanríkisráðuneytisins í Kosovo frá 2001-2002. Hann var sjálfstætt starfandi sem pípulagningameistari milli verkefna hjá Rauða krossinum, og tók að sér fjölmörg verkefni fyrir sjúkrahús og heilsugæslustöðvar hér á landi.

Kristjón var giftur Ásdísi Leifsdóttur. Þau eiga eina dóttur, Halldóru St. Kristjónsdóttur, fædda 1979.