Vinnur að uppbyggingu heilbrigðisverkefna í Úsbekistan

5. mar. 2013

Áslaug Arnoldsdóttir hjúkrunarfræðingur heldur til Úsbekistan laugardaginn 9. mars sem sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi. Áslaug mun starfa með Alþjóða Rauða krossinum (ICRC) um þriggja mánaða skeið við uppbyggingu nýrra heilbrigðisverkefna landsfélaga Rauða krossins í Mið-Asíu.

Hún hefur aðsetur í Tashkent, höfuðborg Úsbekistan, en mun einnig starfa í Kasakstan, Kirgistan, Tadjikistan og Túrkmenistan. Afkoma fólks í þessum ríkjum hefur versnað mikið frá falli Sovétríkjanna fyrir rúmum 20 árum, og ríkir víða mikil neyð meðal almennings.  Alþjóða Rauði krossinn vinnur nú að því að greina þörf þeirra sem minnst mega sín á þessu svæði, og móta heildstæða stefnu í heilbrigðisverkefnum til að þjóna skjólstæðingum Rauða krossins sem best.

Áslaug hefur starfað sem sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi í hartnær tvo áratugi. Hún fór fyrst sem sendifulltrúi Rauða krossins árið 1996 þar sem hún starfaði á sjúkrahúsi Alþjóða Rauða krossins í Suður-Súdan og hefur síðan unnið í Georgíu, Írak, Líbanon, Eþíópíu, Úganda, Pakistan, á Haítí og í Líbýu. Á síðasta ári starfaði Áslaug í Írak þar sem hún vann að heimsóknum í fangelsi, á sjúkrahús og geðsjúkrahús í Bagdad.

Viðtal við Áslaugu í morgunútvarpi Rásar 2