Tæknibylting í hjálparstarfi Rauða krossins í Síerra Leóne

24. apr. 2013

Rauði krossinn á Íslandi hefur sent Sigurð Jónsson kerfisfræðing til starfa í Síerra Leóne næstu tvær vikur til að finna leiðir til að auka verulega tæknilega getu Rauða krossins þar til að sinna hjálparstarfi í einu fátækasta landi heims. Starf Sigurðar er hluti af stærra verkefni Rauða kross hreyfingarinnar sem snýr að því að brúa tæknibilið milli Rauða kross félaga í fátækum löndum og ríkum.

Gert er ráð fyrir að úttekt Sigurðar leiði til þess að hægt verði að bæta verulega upplýsinga- og fjarskiptabúnað Rauða krossins í Síerra Leone. Fyrr í þessum mánuði stóð Rauði krossinn á Íslandi fyrir uppsetningu á SMS kerfi í Síerra Leone, sem gerir Rauða krossinum kleift að vara íbúa í einstökum héruðum við þegar farsóttir ógna eða óveður nálgast.  

Síerra Leóne er með fátækustu ríkjum heims. Þar eru lífslíkur eru um 50 ár og barnadauði með þeim mesta sem gerist í heiminum.  Náttúruhamfarir ógna lífi þúsunda  manna þar á hverju ári, og reglulega gjósa upp sjúkdómar sem auðveldlega má útrýma með réttum viðbrögðum, upplýsingum og fræðslu. Með því að efla notkun síma- og upplýsingatækni hjá Rauða krossinum verður hægt að gjörbylta hjálparstarfi félagsins, flýta viðbrögðum og bjarga mannslífum.

Rauði krossinn á Íslandi hefur verið meðal helstu stuðningsaðila systurfélagsins í Síerra Leóne undanfarin ár.  Rauði krossinn rekur skóla fyrir ungmenni sem urðu illa úti í borgarstríðinu sem þar geisaði, og tveir sendifulltrúar Rauða krossins stýrðu neyðaraðgerðum vegna kólerufaraldurs sem kom upp í landinu á síðasta ári.