Mánuður liðinn frá hamförum á Filippseyjum. Sex sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi að störfum

7. des. 2013

Nú þegar heill mánuður er liðinn frá því fellibylurinn Haiyan lagði hluta Filippseyja í rúst og grandaði um sex þúsund manns hefur þrekvirki unnist í hjálparstarfi Rauða krossins. Um 200 alþjóðlegir hjálparstarfsmenn vinna að neyðaraðgerðum og uppbyggingu auk þúsunda starfsmanna og sjálfboðaliða Rauða krossins á Filippseyjum.

Þegar hefur verið kallað eftir sex íslenskum sérfræðingum til starfa á Filippseyjum. Elín Jónasdóttir, sálfræðingur hélt til Filippseyja á fimmtudag, til að skipuleggja áfallahjálp og sálrænan stuðning vegna hamfaranna, og mun sérstaklega vinna að því að setja upp ferli til að aðstoða starfsfólk og sjálfboðaliða Rauða krossins sem vinna við mjög erfiðar aðstæður til að vinna úr þeim áföllum sem mæta þeim í starfi. Elín er margreyndur sendifulltrúi Rauða krossins í áfallahjálp, og vann að svipuðu starfi í kjölfar flóðbylgjunnar miklu í Suður og Suðaustur Asíu árið 2005.  Þá munu tveir íslenskir hjúkrunarfræðingar halda til starfa í dag og á morgun. Þær munu starfa á átakasvæðum á Samareyjum. Hrönn Hakansson mun vinna á tjaldsjúkrahúsi í við mæðravernd og ungbarnaeftirlit í Balangiga. Þetta er fyrsta verkefni Hrannar fyrir Rauða krossinn. Magna Björk Ólafsdóttir mun svo starfa við sama tjaldsjúkrahús á Samareyjum og þeir Aleksandar Knezevic rafvirki og Orri Gunnarsson verkfræðingur. Þetta er í fjórða sinn sem Magna tekur að sér verkefni á vettvangi fyrir Rauða krossinn, en hún vann meðal annars á tjaldsjúkrahúsi eftir jarðskjálftann á Haítí og við útfærslu neyðarheilsugæslu í Austur-Afríku 

Ástandið er einna verst þar sem íslensku sendifulltrúarnir starfa á Samareyjum því þar kom fellibylurinn á land ásamt flóðbylgju og lagði nánast öll mannvirki í rúst. Þarna ríkja einnig átök og því aðstæður til hjálparstarfs erfiðar vegna skæruhernaðar. Rauði krossinn sér að miklu leyti um heilbrigðisaðstoð eyjarbúa, auk þess að dreifa matvælum, hreinu vatni og öðrum nauðþurftum til tugþúsunda fjölskyldna.

Þá var Karl Sæberg Júlísson einnig við hjálparstörf á hamfarasvæðinu. Karl er einn reyndasti öryggismálasérfræðingur Alþjóða Rauða krossins og hafði yfirumsjón með uppsetningu öryggisferla í neyðaraðgerðunum.

Fólk er hvatt til að hringja ísöfnunarsíma Rauða krossins 904 1500, 904 2500 og 904 5500 og leggja hjálparstarfinu lið. Þá bætist upphæð sem nemur síðustu 4 tölunum við næsta símreikning. Einnig er hægt að borga með kreditkorti á netinu raudikrossinn.is eða leggja inn á reikning 0342-26-0012, kt. 530269-2649.

Elín Jónasdóttir, sálfræðingur hélt til Filippseyja á fimmtudag, til að skipuleggja áfallahjálp og sálrænan stuðning.
Hrönn Hakansson mun vinna á tjaldsjúkrahúsi í við mæðravernd og ungbarnaeftirlit í Balangiga.