Hjálparsími Rauða krossins 1717, Konukot og sendifulltrúar yfir jólin

23. des. 2013

Fjölmargir sjálfboðaliðar og starfsmenn Rauða krossins eru að störfum yfir hátíðirnar líkt og aðra daga. Viðbragðshópar í neyðarvörnum um allt land verða á bakvakt eins og endranær og fylgjast grannt með þróun mála vegna óveðursins sem stefnir yfir landið á næstu dögum.

Sjálfboðaliðar Hjálparsíma Rauða krossins 1717 sjá til þess að svara þeim sem þangað leita allan sólarhringinn, allan ársins hring, og á það einnig við um hátíðisdagana. Þar eru veittar upplýsingar um samfélagsleg úrræði, matarúthlutanir, ókeypis hátíðarmálsverði og opnunartíma ýmissa athvarfa.

Reynslan sýnir að símtöl í Hjálparsíma Rauða krossins aukast jafnan yfir hátíðirnar. Fjölmargir finna fyrir kvíða um þetta leyti árs, og það má alls ekki gera lítið úr slíkri vanlíðan. Sjálboðaliðar Hjálparsímans hafa allir fengið sérstaka þjálfun og fræðslu í að sinna sálrænum stuðningi og búa yfir mikilli reynslu á því sviði.

Konukot, athvarf Rauða krossins fyrir heimilislausar konur á höfuðborgarsvæðinu, er opið allan sólarhringinn frá Þorláksmessu til föstudagsins 27. desember. Dagana 27.–30. desember er venjulegur opnunartími (lokað frá 12:00-17:00), en svo opið allan sólarhringinn gamlársdag og nýársdag. Á aðfangadag er hátíðarkvöldverður, og gestir fá gjafir frá velunnurum Konukots þar sem gamlar hefðir eru í hávegum hafðar því flíkur, bækur og konfekt leynast í pökkunum. Þar geta allir lagst í hreina hvílu með góða bók að lesa..

Fimm sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi verða að störfum yfir jólin. Á Filippseyjum eru þau Orri Gunnarsson, Aleksandar Knezevic, Magna Björk Ólafsdóttir og Hrönn Håkanson við störf á tjaldsjúkrahúsum á Samareyjum, en þar varð eyðileggingin hvað mest af völdum fellibylsins ógurlega sem reið yfir landið í nóvember. Þá er Þór Daníelsson, margreyndur sendifulltrúi Rauða krossins, við störf í Mongólíu.

Elín Jónasdóttirsálfræðingur sem unnið hefur síðastliðinn mánuð við áfallahjálp fyrir sjálfboðaliða og starfsfólk Rauða krossins á Filippseyjum, og Karl Sæberg Júlísson, öryggismálasérfræðingur Alþjóða Rauða krossins í Genf, eru bæði væntanleg til landsins að kvöldi Þorláksmessu.

Þá hafa þau Ómar Valdimarsson, umsjónarmaður með þróunarverkefnum í Malaví, og Áslaug Arnoldsdóttir, sem sá um uppsetningu heilbrigðisverkefna í Mið-Asíuríkjum fyrir Alþjóða Rauða krossinn, lokið verkefnum sínum og komu heim fyrir nokkrum dögum.