Sendifulltrúi Rauða krossins til starfa með sýrlenskum flóttamönnum

11. mar. 2014

Guðný Nielsen iðnaðarverkfræðingur er kominn til starfa Líbanon sem sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi. Guðný var fengin til að styðja Rauða krossinn í Líbanon við rekstur færanlegra læknastöðva sem veita sýrlenskum flóttafjölskyldum almenna heilsugæslu.

Um er að ræða samstarfsverkefni Rauða krossins á Íslandi og í Noregi í samvinnu við Rauða krossinn í Líbanon. Þrjár hreyfanlegar sjúkrastöðvar eru starfræktar fyrir framlög Rauða krossins á Íslandi og í Noregi. Læknar og hjúkrunarfræðingar veita sýrlenskum flóttamönnum margvíslega læknisþjónustu auk þess sem gefinn er sérstakur gaumur að leiðum til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi og ofbeldi gegn börnum sem því miður fylgir oft þeim aðstæðum sem flóttafólk býr við.

Guðný hefur undanfarin ár unnið sem verkefnisstjóri hjá slitastjórn Kaupþings. Þetta er fyrsta verkefni Guðnýjar fyrir Rauða krossinn á alþjóðavettvangi en hún hefur síðustu ár starfað sem sjálfboðaliði Rauða krossins í Reykjavík með konum af erlendum uppruna og við að sinna jaðarhópum í verkefninu Frú Ragnheiði. Guðný hefur einnig starfað sem sjálfboðaliði hjá indverskum hjálparsamtökum sem vinna við að aðstoða götubörn í fátækrahverfum Chandigarh á Norður-Indlandi.

Rauði krossinn á Íslandi hefur á undanförnum þremur árum stutt við sýrlenskt flóttafólk með margvíslegum hætti. Auk samstarfsverkefnisins um sjúkrastöðvar sendi Rauði krossinn í síðasta mánuði gám af hlýjum fatnaði til Líbanons sem dreift verður á næstu vikum til sýrlenskra flóttamanna. Þá hefur Rauði krossins veitt fjárframlög í neyðaraðstoð Alþjóða Rauða krossins sem sér um að dreifa lífsnauðsynlegum hjálpargögnum innan Sýrlands, og viðhalda vatnsveitukerfi fyrir íbúa landsins.