Sendifulltrúi Rauða krossins til starfa á átakasvæðum í Suður-Súdan

21. mar. 2014

Elín Oddsdóttir skurðhjúkrunarfræðingur heldur í dag til starfa í Suður-Súdan sem sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi. Elín mun starfa fyrir Alþjóða Rauða krossinn í færanlegri læknastöð sem veitir óbreyttum borgurum heilbrigðisaðstoð, en átök brutust út í Suður-Súdan í lok síðasta árs og hafa farið harðnandi á undanförnum vikum.

Ástandið í Suður-Súdan er mjög óstöðugt og þörf fyrir hjálparstarf gífurlegt. Fjöldi íbúa veigrar sér við að leita eftir lífsnauðsynlegri læknisaðstoð af ótta við að lenda í átökum stríðandi fylkinga. Heilsugæslustöðvar hafa víða verið eyðilagðar og erfitt er að veita íbúum viðunandi hjálp. Fjölmargir hafa látið lífið af völdum minniháttar áverka eða sjúkdóma.

Alþjóða Rauði krossinn starfrækir fjórar færanlegar læknastöðvar á átakasvæðunum sem eru mannaðar sérfræðingum í skurðlækningum og svæfingum. Elín mun starfa í einni slíkri næstu sjö vikurnar.

Þetta er annað vettvangsverkefni Elínar fyrir Rauða krossinn. Hún starfaði á alþjóðlegu tjaldsjúkrahúsi í Port-au-Prince á Haítí í kjölfar jarðskjálftans mikla árið 2010. Elín hefur búið og starfað í Lundi í Svíþjóð síðastliðin tvö ár, en vann áður í tvo áratugi á skurðdeild Landspítalans.